131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:26]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ágætisumræða og ég tel að frumvarpið sé beinlínis til bóta og auki víddina hvað þetta varðar og auki möguleika sveitarfélaganna. Almennt er ég ekki hrifinn af því að sveitarfélög selji eignir sínar o.s.frv., og vil að það komi mjög skýrt fram, en í þessu tilfelli held ég að vel komi til greina að skoða þetta. Ef við tökum bara Alþingi sem dæmi er ég þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að eiga allt það húsnæði sem við notum, vegna þess að þegar verið var að byggja í Austurstræti 8 er ég ekki frá því að bara við það að Alþingi tók viðkomandi húsnæði á leigu hækkaði verðgildi þess um ótrúlega mikla peninga. Ég þori ekki að nefna nákvæma tölu en það eru ótrúlega miklir peningar. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að t.d. Alþingi eigi að eiga það húsnæði sem við notum og nýtum okkur.

Í þessu tilfelli erum við að tala um ákveðið jafnræði milli sveitarfélaga. Þetta er auðvitað ákveðin pólitík og þeir sem stjórna viðkomandi sveitarfélagi mega að sjálfsögðu ráða því hvernig þeir vilja hafa þetta. Ég er að tala um mínar skoðanir og ég er ekkert heilagur hvað þetta varðar vegna þess að þetta er þverpólitískt mál og skiptir ekki nokkru máli hverjir stjórna hvað þetta varðar.