131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:30]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Hérna er verið að leggja fram frumvarp þar sem er heimilt að styrkja stofnframkvæmdir einkaaðila við holræsaveitur, þ.e. það er verið að hvetja til þeirrar aðferðar. Hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir málinu áðan og í athugasemdum við lagafrumvarpið stendur, með leyfi forseta, sem fullyrðing frá umhverfisráðuneytinu:

„Vaxandi áhugi er hjá sveitarfélögunum að taka fráveitur sem einkaaðilar reisa á leigu.“

Það er að segja á rekstrarleigu eða eignarleigu.

Þetta er fullyrðing. Ég hafði ekki hugmynd um þetta og er þó nokkuð vel að mér í sveitarstjórnarmálum. Ég kann ekki á þetta. Þetta kom mér líka á óvart vegna þess að frumvarpið virðist vera samið um eitt ákveðið mál, þ.e. austur á Egilsstöðum þar sem ég er í meiri hluta, minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn og félagshyggjufólk sem Vinstri grænir eru meðal annars aðilar að, og Vinstri grænir hafa talað hér látlaust á móti einkaframkvæmdum eins og ég en eru samt (Gripið fram í.) aðilar að þessu máli. Mér þykir þetta með hreinum ólíkindum. Þarna fyrir austan eru þeir bara grænir en annars staðar eru þeir til vinstri. Þarna eru þeir ekki hvort tveggja vinstri grænir heldur bara grænir. Hver tekur mark á svona fólki?

Varðandi þetta mál, ef verið er að tala um einkaframkvæmdir á öllum hlutum varðandi sveitarfélögin, þá held ég að þessi mál hér á landi séu komin í algert óefni. Það er farið að selja allar eignir sveitarfélaganna. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sagði hér að Vestmannaeyjabær hefði selt allar sínar eignir ásamt fleiri bæjarfélögum. En þeir áttu eftir að selja holræsaveiturnar. Það er eftir. Menn áttuðu sig ekki á því. Það er smásmuga í því. Sveitarfélög sum hafa gefist upp á rekstrarlegri ábyrgð síns sveitarfélags með einhverjum hætti, annaðhvort hafa þau hækkað þjónustustigið og ráða ekki við það, vantar fjármagn, eða hafa farið í einhver ákveðin gæluverkefni, vantar fjármagn í það, og selja síðan og leigja til baka. Menn eru að skuldbinda sig til 20 ára, 25 ára eða 30 ára og þessar skuldbindingar hlaupa ekkert frá sveitarfélögunum. Það er alvarlegi hlutinn í þessum málum og kannski er enn verra að sveitarfélögin eru hætt að færa þessar skuldbindingar inn í reikninga sveitarfélaga. Ég átta mig ekki á því hvers vegna félagsmálaráðuneytið hefur ekki gert athugasemdir við það. Er það bara óþarfi og hvernig er hægt að taka út stöðu sveitarfélaga sem eru með rekstrarlegar skuldbindingar kannski upp á hundruð milljóna eða einhvern ákveðinn hluta af tekjunum? Ég hef í þessum stól farið áður yfir galla og kosti einkaframkvæmda.

Frægt er eitt sveitarfélag í Danmörku, Farum. Þeir seldu allt. Þeir seldu meira að segja ráðhúsið. Svo keyptu þeir dýrt rauðvín. Það varð þeim um of og það varð að taka í taumana og flauta út af yfirstjórn bæjarins. Þá var allt búið. Menn áttu ekki fyrir rekstrinum. Menn áttu ekki eignirnar og ekki neitt.

Hver er svo munurinn á því að sveitarfélagið sjálft geri þetta eða ekki? Ég hef svo sem heyrt þennan söng, þennan fagurgala sölumanna einkaframkvæmdarinnar sem er eftirfarandi: Það er bara þessi lausn sem er svo góð að við eigum að velja hana. Hún er ódýr og best fyrir sveitarfélagið. Sveitarfélagið getur aldrei gert þetta sjálft. Það er bara eins og tæknimenn sveitarfélagsins og ráðgjafar hafi ekkert vit á hlutunum. Ég hef heyrt þann söng æðioft hjá sölumönnum einkaframkvæmdarinnar að þeir byggi mannvirki sem séu nánast viðhaldsfrí því það sé svo flott efni sem þeir nota, langtum betra en það sem sveitarfélögin hafa unnið með í gegnum tíðina. Tæknimennirnir hjá sveitarfélögunum eru svo búnir að vinna þarna í áratugi.

Hver er svo ávinningurinn? Jú, ef sveitarfélagið ætlar að gera það sjálft getur það slegið lán ef það á ekki peninga til framkvæmdarinnar og fengið það væntanlega á mjög hagstæðum kjörum. Kannski er það hagstæðara en hjá þeim aðila sem er að bjóða einkaframkvæmdina nema ef það væru bankarnir, t.d. Íslandsbanki, með fasteign. Þeir náttúrlega hafa aðgang að ódýru lánsfé. Svo er hins vegar ávöxtunarkrafan, þ.e. krafa um ávöxtun á peningunum og hagnað. Þá erum við að tala um að það geti hlaupið frá 2% upp í 6% og ef við erum að tala um 25 ár — við getum sagt að meðalgildið sé 4% og þá erum við að tala um að það sé 4% í tuttugasta og fimmta veldi — þá er viðkomandi sveitarfélag búið að borga þetta mannvirki 2,5 sinnum eða þrisvar sinnum, þ.e. tvisvar sinnum oftar heldur en þarf eða kannski 1,5 sinnum ef maður reiknar eðlilega vexti á lánsfé. Þetta er bullandi bisness og menn eru alveg á grænni grein sem eru í þessu. Þeir segja mér að eftir 12–15 ár séu þeir búnir að borga upp framkvæmdina og síðustu tíu árin setja þeir bara peningana í vasann. Þetta er svona. Er það þetta sem þið viljið? Ég spurði hæstv. umhverfisráðherra: Hvers vegna er ríkið að stuðla að þessu með þessum hætti?

Árið 2002 voru sett sérlög fyrir Hafnarfjörð. Það eru þau lög sem vitnað er í í athugasemdunum við þetta frumvarp. Það væri því hægt að taka styrki sem voru til nýframkvæmda í grunnskólum, til að einsetja grunnskólana. Það gilti fyrir Hafnarfjörð eins og aðra af því að þeir voru fyrstir í þessum einkaframkvæmdum. Ég segi því að sveitarfélögin eru komin á mjög hættulega braut í þessum málum.

Sveitarfélögin hafa gert það mörg hver þegar þau hafa aukið þjónustustigið og skatttekjurnar duga ekki að þá er byrjað að selja eignirnar og leigja þær og leigan lækkar aldrei. Verðmætasköpun og tekjuauki í samfélaginu hefur orðið mikil vegna þess að hér hefur setið mjög góð ríkisstjórn allar götur frá því 1991 og sveitarfélögin hafa notið þess tekjuauka. En það er ekki alltaf víst að það verði svo og ef tekjurnar í samfélaginu minnka, m.a. sveitarfélaganna, þá lækkar ekki leigan. Hvað eiga menn að gera þá? Eiga þeir þá að lækka þjónustustigið eða koma til ríkisins og heimta meiri peninga eins og sveitarfélögin hafa verið að gera? Þegar nýbúið er að gera samningana þá koma ýmis sveitarfélög fram og segja: „Jæja, nú ætlum við að gefa leikskólagjöldin frí.“ En í dag greiða sveitarfélögin 65–75% af rekstri leikskólanna þannig að það komi nú hér fram. Þetta er ábyrgðarleysi. Sérstaklega þegar nálgast kosningar þarf að fara að slá út trompunum. Þá þarf að spila út í trompleiknum. Ég vara við þessari þróun.

Þetta frumvarp stuðlar að því, og ég er alveg sammála því, að mismuna mönnum ekki í þessu, miðað við mismunandi form hvort það eru sveitarfélög eða einkafyrirtæki. En það er verið að hvetja til að fara þessa leið og að menn geta selt holræsaveiturnar sínar. Menn eru búnir að selja, eins og tínt var til hér áðan, skólana, þ.e. grunnskóla, leikskólana og öll önnur mannvirki, stjórnsýslubyggingarnar og allt hvað þetta heitir, vatnsveiturnar. Það kaupir Orkuveita Reykjavíkur. Hún kaupir það, allar vatnsveitur og hitaveitur á landinu helst. Síðan á að selja holræsaveiturnar. Þá er orðið lítið eftir. Að hverju ætla menn að snúa sér næst til að selja? Þá þurfa þeir að fara að hugsa um það hvort hægt sé að selja malbikið á götunum. Hvað eiga menn að gera? Þetta er komið út í hreina vitleysu og verst er að hæstv. félagsmálaráðherra skuli ekki vera hér staddur því ég er með ákveðnar fyrirspurnir til hans sem við munum eiga orðastað um seinna í þessum mánuði. Hvert er eftirlitshlutverk félagsmálaráðuneytisins þegar sveitarfélögin gefa ekki einu sinni orðið upp skuldbindingarnar varðandi einkaframkvæmdir, rekstrarleigu eða eignarleigu? Það veit enginn. Menn selja eignirnar, borga niður skuldirnar og skuldbindingarnar aukast ekki neitt neins staðar. Skuldirnar lækka bara, flottur rekstur, meðan svo þeir þarna niðri í Tryggvagötu í félagsmálaráðuneytinu leggja sig. Þeir eru kannski að spá eitthvað í lóðaúthlutanir og annað sem þeir virðast vera miklir sérfræðingar í þar.

Ég vil segja, virðulegi forseti, án þess að fjölyrða um þetta að ég vara við þessari þróun, að menn séu að fara að selja holræsaveiturnar sínar og allt það. Því mun ég ekki geta stutt þetta frumvarp af þeim ástæðum sem ég gat um áðan og vísa til eftirlitsskyldu félagsmálaráðuneytisins. Ég held að menn þurfi að fara yfir þetta í alvöru talað. Við getum ímyndað okkur fólksfækkun yrði í ákveðnum sveitarfélögum eins og hefur gerst víða um land. Búseta manna hefur færst til og sveitarfélögin hafa setið uppi sum hver með færra fólk og þeir sem eftir eru hafa þurft að bera ábyrgðina og ríkið ekki komið inn í þetta. Nú þegar allt er farið og sveitarfélögin orðinn eign kaupahéðna á höfuðborgarsvæðinu þykir mér orðið illt í efni. Almerkilegast þykir mér að Vinstri grænir skuli taka þátt í svona hlutum eins og þarna á Egilsstöðum. Ég botna bara ekkert í því. Þeir hafa komið hér og verið sammála mér í þessu. Nú allt í einu kveður það við að þeir hafa verið þátttakendur í þeim meiri hluta sem stóð að þessum málum.