131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:42]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Gunnars Birgissonar kom mér ekki mikið á óvart. Ég heyri að afstaða okkar til þessa máls er mjög svipuð. Hún kom mér ekki á óvart vegna þess að ég heyrði hann tala mjög afdráttarlaust um að þessa leið mundi hann ekki fara þegar sveitarfélög voru að byrja að byggja stóru íþróttahúsin í einkaframkvæmd og hann lýsti því hvað þetta mundi kosta sveitarfélagið umfram það að fara hefðbundna leið. Ég bað eiginlega um orðið í andsvari til að spyrja hvort hann hefði skoðað það á sínum tíma hve miklu hefði munað þegar upp var staðið í greiðslum fyrir sveitarfélagið Kópavog að fara hefðbundna leið í byggingu íþróttahúss heldur en fara þá leið sem t.d. Reykjanesbær fór.

Mig langar líka að spyrja — ég bið um að þingmaðurinn sé ekki truflaður meðan ég ber fram fyrirspurn til hans — mig langar líka að spyrja hann vegna þess að bæði ég og hv. þm. Gunnar Birgisson þekkjum baráttuna við ríkisvaldið um uppgjör vegna lögbundinna framlaga við framkvæmdir sem sveitarfélög hafa lagt út fyrir og ríkið á að greiða í og ár eftir ár er barist fyrir því að fá eitthvað smávegis upp í þessi framlög. Á þetta ekki eftir að verða erfitt í framtíðinni ef hvert sveitarfélagið á fætur öðru er að sækja um og fá opinber framlög sem eiga að renna til stofnframkvæmda sem sveitarfélagið fjármagnar ekki heldur einkaaðilar úti í bæ þegar sveitarfélög með hefðbundnar framkvæmdir fara að togast á við þessa einkaaðila um ríkisframlögin? Sér hv. þingmaður það fyrir sér hvernig þetta getur orðið til viðbótar öðru?