131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:44]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég svara fyrst seinni spurningunni um uppgjör frá ríkinu varðandi fráveituframkvæmdir yfir höfuð. Það hefur það gengið afskaplega vel að eiga við umhverfisráðuneytið. Það skiptir svo sem ekki máli hvort það er einkaaðili eða sveitarfélagið sjálft sem hefur staðið fyrir þeim framkvæmdum. Ég þekki náttúrlega ekki nema annan partinn, þ.e. þegar sveitarfélagið hefur staðið sjálft fyrir þessu. Þetta eru gífurlegar framkvæmdir og mikill kostnaður t.d. hjá Kópavogi og Reykjavíkurborg og Garðabæ og Seltjarnarnesbæ. Við höfum verið með sameiginlega holræsaveitu í þessum sveitarfélögum og svo við sérsveitarfélög þar fyrir innan. Það hefur ekki verið vandamál með uppgjör á þessum málum. Ég sé ekki nein vandkvæði í því máli og það ráðuneyti hefur verið til fyrirmyndar í því og hafa nánast ekki komið upp nein ágreiningsmál, alla vega ekki sem hafa snúið að Kópavogsbæ í þeim málum. Þeir eiga mikið hrós skilið fyrir það.

Fyrri spurning hv. þingmanns var um íþróttahús í Kópavogi. Við höfum fengið marga sölumenn einkaframkvæmdar sem hafa verið mjög tunguliprir og sagt hvað þetta sé rosalega gott og að við séum ekki að binda peninga skattborgaranna í þessum mannvirkjum. Þá spyr maður: Hvað með alla peningana sem við erum að binda til framtíðar? Við erum að binda skattfé unga fólksins okkar, barnanna. Við hv. þingmaður verðum þá hætt afskiptum af stjórnmálum og lifum í rólegheitum einhvers staðar. En börnin okkar, unga fólkið, mun þurfa að borga þetta, þ.e. það sem sveitarfélögin eru að gera núna. Menn eru að varpa ábyrgðinni sem núna er til framtíðarkynslóðanna. Ég er búinn að skoða dæmið um íþróttahúsið í Kópavogi. Það kom aldrei til greina að gera það í einkaframkvæmd. Eins og ég skýrði út áðan reiknuðum við út að það borgaði sig frekar að slá lán fyrir framkvæmdinni þó svo að okkar sveitarfélag hafi ekki þurft ekki á því að halda.