131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:48]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem í fyrsta lagi til að lýsa því yfir að ég er mjög sammála þeim sjónarmiðum hv. þm. Gunnars Birgissonar um hversu fráleitt er að sveitarfélögin séu að fara út í einkaframkvæmd og einkavæða grunnalmannaþjónustu sína eins og hann rakti hér mjög rækilega, enda má hv. þingmaður eiga það sem gott er. Hann hefur haldið þeim sjónarmiðum mjög á lofti innan sveitarfélags síns að standa vörð um þá grunnalmannaþjónustu sem sveitarfélög eiga og bera ábyrgð á og vera ekki að gera það að matkrók fyrir fjármagnseigendur eða einkaaðila sem vilja gera sér hana að gróðaefni. Með einkavæðingu á skolphlutum eða fráveitum, eins og hér er verið að opna dyrnar að, er þegar fram í sækir opnað fyrir heljartak, menn yrðu að greiða fyrir að fá að sturta niður í raun.

Hv. þm. Gunnar Birgisson rakti þau sjónarmið sín og eins rökfastur og hv. þingmaður er, þá velti ég því fyrir mér hvers vegna honum hafi ekki tekist að sannfæra ráðherrann sem kemur úr sama kjördæmi og ætti að vera auðvelt fyrir hann að taka í kennslustund, þegar einmitt sömu kjósendur kjósa hæstv. ráðherra til þingsetu og hv. þm. Gunnar Birgisson til að leiða sveitarstjórn í Kópavogsbæ.

Ég vil inna hv. þingmann eftir hvort hann vilji ekki taka að sér að taka hæstv. ráðherra, umhverfisráðherra, og aðra sjálfstæðismenn sem hugsanlega er hægt að koma vitinu fyrir í kennslustund (Gripið fram í.) í þessum efnum og koma þeim á rétta braut eins og hv. þingmaður virðist vera fullfær um.