131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:50]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á að Sjálfstæðisflokkurinn er stór flokkur sem rúmar margar skoðanir, en ég vil líka benda hv. þingmanni á að í félagshyggjufólkinu á Héraði eru Vinstri grænir, þar er flokkur hv. þingmanns aðili að og náttúrlega aðili að þessu máli beint og óbeint.

Það er annað sem hefur kannski ekki verið rætt hér og það er annað vers sem er einkarekstur. Honum er ég mjög fylgjandi. Það er allt annað að tala um einkaframkvæmdir en einkarekstur og rekstur á mannvirkjunum. Ég held að það sé mjög gott að ákveðinn hluti af samfélagsþjónustunni sé einkarekinn, eins og t.d. leikskólar að einhverjum hluta, grunnskólar að einhverjum hluta, framhaldsskólar að einhverjum hluta og heilbrigðisþjónustan að einhverjum hluta, bæði til að hafa aðhald á því opinbera kerfi sem fyrir er og samanburð. (Gripið fram í.) Ég held að það sé mjög gott mál.

Ég er ekki svo forstokkaður eins og Vinstri grænir sem vilja opinber afskipti af öllum málum og vilja gefa íbúum þessa lands að borða úr lófanum á sér þegar þeim passar. Slíku er ég ekki alveg fylgjandi. En ég er náttúrlega mjög fylgjandi einkarekstri stofnana og einkarekstri í menntakerfinu og öðru. En hvers vegna ekki einkaframkvæmd? Ég er ekki fylgjandi því að menn séu að byggja í einkaframkvæmd sem er hreint og klárt fjárhagslegt glapræði fyrir sveitarfélögin. Ég get bara ekki stutt það. Það er alveg útilokað. Það þarf ekki annað fyrir menn eins og mig sem kunna bara litlu margföldunartöfluna til að skilja þetta, ég veit ekki með hina.