131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:55]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson hefur notað þetta mál til þess að hvetja til ábyrgðar í fjármálastjórn sveitarfélaga. Þar erum við alveg hjartanlega sammála. Við erum algjörlega sammála um að sveitarfélög eiga að sýna ábyrgð í fjármálastjórn. Það á að koma fram í ársreikningum sveitarfélaga ef þau fara þá leið að fara út í einkaframkvæmd, rekstrarleigu eða einhverjar þær fjárskuldbindingar sem er ástæða til að gerð sé grein fyrir í ársreikningum sveitarfélaga. Þarna erum við algerlega sammála.

Af hverju erum við þá að tala um það í þessu einstaka máli? Þannig vill til að hv. þingmaður nefndi það einmitt að Fljótsdalshérað hefur farið í þá framkvæmd sem fjallað er um hér. Sveitarfélagið þar hefur sýnt mjög mikla ábyrgð í fjármálastjórn og hefur ekki gripið til þess í öðrum tilfellum að fara út í rekstrarleigu eða einkaframkvæmd. Þannig að í þessu tilfelli ákvað sveitarfélagið og reiknaði það mjög vel út hvað hentaði best í þessu tilviki.

Mér finnst full ástæða til að það komi fram í umræðunni, af því að hv. þingmaður dró það fram, að þarna er bara um allt annars konar skuldbindingar að ræða en leiguíbúðir í Reykjavík, skólahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem menn hafa verið að grípa til eða íþróttahús í Kópavogi sem hv. þingmaður ákvað að skyldi ekki fara í einkaframkvæmd. Mér finnst það mjög til sóma af honum að meta og reka sveitarfélagið sitt með þeim hætti og það eiga menn að gera, en ég treysti því að menn skoði þetta með opnum huga í umhverfisnefnd, hv. þingmaður eins og ég.