131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:57]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber nú mikla virðingu fyrir því að þingmenn viðkomandi kjördæmis standi á bak við sitt fólk. Þetta er ekkert öðruvísi, hv. þingmaður, en að byggja skóla eða íþróttahús. Þetta er nákvæmlega sama málið. Það er verið að segja við einkaaðilann: Þú skalt byggja, ég ætla að leigja þetta af þér.

Ef sveitarfélagið hefur ekki farið út í þetta, sem ég held að það hafi ekki gert, þetta ágæta sveitarfélag og hefur rekstur þess verið til fyrirmyndar, þá botna ég ekkert í hvað þarna hefur gerst, ég átta mig ekki á því. Ég held að kannski séu þarna einhverjir heimahagsmunir, heimafyrirtæki eða eitthvað annað sem komi þarna til. Þetta er nákvæmlega sama málið og við værum að byggja skóla, íþróttahús eða annað, eins og með holræsaveituna. Þessi veita fer ekkert í burtu. Hún verður þarna næstu 50 árin og sveitarfélagið þarf að borga leigu af henni. Þetta fer ekkert. Þetta fer ekkert frekar en íþróttahúsin eða skólarnir eða annað. Þetta er bara partur af samfélagslegri þjónustu.

Það er svo sem ekkert meira um þetta að segja. Ég vara bara við því að þó svo að hv. þingmaður sé að reyna að verja sitt fólk í kjördæmi sínu, þá er þetta sama málið. Það skiptir ekki máli hvað þetta heitir. Þetta eru sömu samningarnir, sömu ábyrgðirnar og annað slíkt.