131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:59]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta litla frumvarp snýr að því að sveitarfélög í landinu sitji við sama borð. Þau hafa sjálfstæði til að ákveða hvernig þau reka og hvernig þau ráðast í framkvæmdir. Við höfum annað dæmi um nákvæmlega sams konar sveitarfélag, Hveragerði, sem er landlukt sveitarfélag og fór sjálft í mjög dýrar, hv. þingmaður, mjög dýrar framkvæmdir við holræsagerð og hreinsibúnað, það dýrar að endurgreiðslan frá ríkinu var 78 millj. kr. Við erum ekki að tala um slíkar upphæðir austur á Fljótsdalshéraði, en við erum auðvitað að tala um það að sveitarfélög velji sér þær leiðir sem þau geta. Í tilfelli Hveragerðis voru þessar framkvæmdir seldar frá sveitarfélaginu eftir að búið var að framkvæma þetta og eftir að styrkirnir voru komnir frá ríkinu. Hver er munurinn á þessu, hv. þingmaður? Ég fullyrði að mun betur var staðið að verki fyrir austan og þess vegna eru þetta mun ódýrari framkvæmdir og (Gripið fram í.) ég treysti því bara enn og aftur að hv. þingmaður skoði þetta með opnum huga þegar við förum yfir þetta í umhverfisnefnd.