131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[16:41]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hafa verið fluttar ágætar ræður og um margt fróðlegar og upplýsandi. En áður en ég vík að þeim vil ég segja fáein orð um megininntak frumvarpsins, sem er að veita stjórnvöldum heimild til að styðja sveitarfélög sem komið hafa fráveitukerfi sínu í hendur einkaaðila þannig að jafnræði ríki með þeim annars vegar og hins vegar hinum sem reka veiturnar á eigin vegum. Lítið mál og einfalt, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, vegna þess að málið snýst um að styrkja verkefni, málið snýst um jafnræði, segir hann.

Ég held að málið sé ekki alveg svo einfalt. Við höfum dæmi í ríkis- og sveitarekstrinum þar sem einmitt er mismunað á grundvelli rekstrarforms. Ég hef áður minnst á öldrunarheimilið Sóltún hf. í Reykjavík, sem nýtur hærri styrkja úr ríkissjóði en önnur sambærileg heimili, einmitt vegna rekstrarformsins. (Gripið fram í: Og hærri krafna.) Nei, það er misskilningur hjá hv. þingmanni, vegna þess að þegar farið er í saumana á þeim málum — og ég hef kynnt mér þetta mjög vel — þá eru meiri kröfur reistar á hendur hinum heimilunum þegar allt kemur til alls varðandi lyfjagjöf, margvísleg aðstoðartæki og þar fram eftir götunum. Ef sjúkdómsþyngdin er meiri en gert er ráð fyrir í upphaflegum samningum á þessu tiltekna heimili eykst fjárstreymið úr ríkissjóði.

Ég hef ekki tiltækar tölur núna, en það er talið í hundruðum milljóna munurinn á þeim greiðslum sem renna t.d. til Grundar annars vegar og þessa heimilis hins vegar. Hinn opinberi eftirlitsaðili skírskotar þá í rekstrarform og segir að eðlilegt sé að þeir sem fjárfesti í slíkri starfsemi fái eitthvað fyrir sinn snúð. Með öðrum orðum — ríkið er að niðurgreiða arð sem rennur til eiganda, sem rennur til fjárfesta.

Þetta vildi ég sagt hafa, vegna þess að þetta er ekkert smámál. Rekstrarform kemur skattgreiðandanum við, enda er það ekki að ástæðulausu að þeir hv. þingmenn sem talað hafa í málinu, Pétur H. Blöndal, Gunnar Birgisson, Þuríður Backman, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson ræddu öll um rekstrarform í þessu samhengi — og réttilega.

Hv. þm. Gunnar Birgisson sagði að í algert óefni stefndi hjá sveitarfélögum sem væru að gefast upp á rekstrarlegri ábyrgð sinni og gripu þá til þess ráðs að skuldbinda sig til 25 ára, stundum 30, í einkaframkvæmd og hann sagði að þessar skuldbindingar hlypu ekki frá sveitarfélögunum. Þetta var nokkuð sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vék einnig að í samlíkingunni um naglasúpuna. Þetta verður ekki til af sjálfu sér. Það er ráðist í skuldbindingar. Sveitarfélög undirgangast skuldbindingar sem þarf að borga. Það kemur að skuldadögunum.

Hv. þm. Gunnar I. Birgisson talaði um ávöxtunarkröfur í þessu sambandi hjá fjárfestum, talaði um 2–6%, gaf sér 4% meðaltal og komst að þeirri niðurstöðu þegar hann hafði slegið á málið að sveitarfélög, hinn opinberi aðili, skattgreiðandinn, væru að greiða frá hálfu öðru sinni til þrisvar sinnum meira fyrir verkefni í einkaframkvæmd en í opinberu rekstrarformi. Þetta skiptir því allt saman máli. Þá er spurningin: Hvernig hvatar eru settir inn í skattkerfið og inn í skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart þessum fyrirtækjum?

Hv. þm. Gunnar I. Birgisson sagði að einkaframkvæmdin væri bullandi bisness, eins og hann komst að orði, þeir sem legðu þetta fyrir sig væru í sjálfu sér á grænni grein. Hann spurði: Hvers vegna í ósköpunum er ríkið að stuðla að þessari þróun? Hann endurtók að sveitarfélögin væru komin út á afar hættulega braut með þessu móti.

Nú vill svo til að hv. þm. Gunnar Birgisson er ekki bara pólitíkus í Reykjavík og öðru sveitarfélagi, hann er líka bisnessmaður. Þetta er bisness. Þetta er spurning um bisness. Aldrei þessu vant var ég sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal þegar hann var kominn út í þau fræðin. Við erum að tala um skuldbindingar, kostnað og það hvernig fjármunum okkar er varið. Ég veit svo að við erum ósammála um rekstrarform almennt, um einkarekstur og opinberan rekstur, ég ætla ekkert að vera að leggja honum orð í munn eða rangtúlka tal hans. Að þessu leyti hafa menn hins vegar réttilega áhyggjur. Menn hafa áhyggjur af því hvert stefnir með einkaframkvæmdinni.

Það er reyndar svo að þetta er ekki flokkspólitískt mál í einhverjum þröngum skilningi. Það er það ekki. Við sem höfum tjáð okkur um þetta mál erum t.d. sammála að grunninum til. Ég get nefnt að í umræðu sem fram hefur farið í Bretlandi á undanförnum missirum og árum er það Íhaldsflokkurinn sem er að koma upp núna með gagnrýni á stefnu Verkamannaflokksins. Mjög merkileg skýrsla var birt hjá Unison, verkalýðssamtökunum, í fyrrasumar þar sem farið var mjög rækilega í saumana á einkaframkvæmd þar í landi og reynsluna af henni. Það kom fram að á undanförnum 12 árum hafa verið gerðir 563 samningar af þessu tagi, 451 þegar í framkvæmd, að verðmæti 36 milljarða sterlingspunda. Síðan kemur í ljós að af hálfu stjórnvalda hefur afskaplega lítið verið rannsakað hver reynslan er af þessu formi. Í þeim tilvikum þar sem rannsóknir hafa farið fram kemur í ljós að þetta er miklu dýrara fyrir skattborgarann.

En það er ekki nóg með það. Það sem kom fram í umfjöllun sem breska ríkisútvarpið BBC lét gera um einkaframkvæmdina er að nú sé að myndast í Bretlandi eftirmarkaður með einkaframkvæmdafyrirtæki, samningar um einkaframkvæmd gangi nú kaupum og sölum á milli fjárfesta. Þannig hefur myndast eftirmarkaður með skóla, sjúkrahús og fangelsi. Í Bretlandi er starfandi samráðsnefnd, þeir kalla hana Public Private Partnership Forum. Það kom í ljós í Bretlandi að sá sem er í forsvari fyrir þessa samráðsnefnd, David nokkur Metter, er sjálfur á kafi í þessum bisness, hefur keypt hluti í meira en 20 skólum og sagði að skattborgaranum og hinum opinberu eftirlitsaðilum kæmi þetta einfaldlega ekki við, þetta væri bara bisness. Hver skyldi þá hafa risið upp annar en Richard nokkur Bacon, en hann er þingmaður Íhaldsflokksins og á sæti í opinberri nefnd um endurskoðun ríkisreikninga, Common's Public Accounts Committee. Hann sagði í þessum þætti á BBC sem ég vísaði til að skattborgaranum kæmi við hvernig með fé hans væri farið og að fjárfestar í rekstri á vegum hins opinbera yrðu að sætta sig við meiri upplýsingaskyldu en í öðrum rekstri.

Ég nefni þetta bara til upplýsingar um þá umræðu sem fram fer annars staðar og mikilvægi þess að við nálgumst þetta mál ekki á þröngum flokkspólitískum nótum. Okkur er treyst fyrir almannafé. Við eigum að ræða það alveg opið og fordómalaust hvaða leiðir eru heppilegastar til að ráðstafa þessum fjármunum. Síðan eru menn sammála eða ósammála eftir atvikum. En menn verða að gefa sér tíma til þess að kanna hver reynslan er af mismunandi rekstrarformi.

Það sem hér hefur komið fram og ég vil taka undir er að stóra hættan í þessu er sú að sérstaklega hjá sveitarfélögum eða ríki sem er í fjárnauð er svo auðveld lausn að klippa á borðann, opna sjúkrahúsin og skólana og þess vegna skolphreinsistöðina og fráveiturnar, einfaldlega með því að gera samning við einkafyrirtæki. Ekkert sést í skuldakladdanum og ekkert er vitað um annað en — og það er náttúrlega mikilvægt — skuldbindingar 25–30 ár fram í tímann. Þetta er ávísun á skuldbindingu á hendur skattborgurum framtíðarinnar. Þetta eru bara staðreyndir sem við þurfum að staðnæmast við.

Þá er komið að þessu frumvarpi. Ég vil ekki segja að verið sé að örva sveitarfélög til að fara út á þessa braut en það er a.m.k. ekki verið að koma í veg fyrir að þau geri það. Þá er veruleikinn sá hjá mörgum sveitarfélögum að þau eru peningalega aðþrengd. Sú freisting er mjög mikil að fara þessa leið, bara að vísa reikningnum inn í framtíðina, og nái síðan frumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga kemur styrkur. Þá eiga þau kost á fjárhagsstyrk ekkert síður en önnur sem þráast við og halda þessari samfélagsþjónustu innan sinna vébanda og á eigin forræði. Þetta er ekkert smámál. Það er misskilningur hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Við verðum að skoða þessi mál nákvæmlega í þessu samhengi. Við erum að byggja inn í kerfið hvata til að fara þessa leið.

Ég held að við eigum að taka alvarlega þau varnaðarorð sem hér hafa heyrst í þingsal, frá m.a. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, auk okkar úr stjórnarandstöðunni, hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, Þuríðar Backman, Sigurjóns Þórðarsonar og mín, að nú sé kominn tími til að staldra við. Það er svo skrýtið að þegar hugmyndafræðin er annars vegar og menn telja að þetta sé eitthvert skref inn í markaðsvæðinguna, jafnvel þótt ágætir menn eins og hér hafa verið nefndir sjái blikkandi varnaðarljósin, er samt haldið áfram. Bara þessa dagana eru fréttirnar af sölu Landssímans þvert á þjóðarvilja. 80% Íslendinga eru andvíg þessu. Við sátum í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun sem hélt sameiginlegan fund með iðnaðarnefnd þar sem farið var yfir skattlagningu orkufyrirtækja. Þar benda nánast allir umsagnaraðilar á — ég nefni að vísu ekki Samtök atvinnulífsins, Verslunarráðið sennilega og einhverja sem eru með þessa skrúfu á sálinni að geta ekki komið auga á neitt annað en markaðsvæðingu — gallana þessu samfara, vara við þessu og segja að þetta sé notandanum í óhag, þetta sé illt og slæmt fyrir sveitarfélögin, það séu lausir endar o.s.frv. Samt er haldið áfram.

Eins er það hérna. Við erum búin að ræða þetta mál í allan dag. Nánast allir sem taka til máls vara við þessu og það liggur í orðum þeirra að reynt verði að sporna við þessari þróun. Það er of mikið sagt að segja að þeir hafi varað við þessu frumvarpi en það liggur í orðum þeirra að það eigi að reyna að sporna við þessari þróun almennt. Það liggur í orðum þeirra. Eigum við þá ekki bara að gera það? Er ekki rétt að taka þetta frumvarp sem hér liggur fyrir, leggja það á ís, setjast niður og ræða málin, kannski svolítið faglega? Það væri tilbreyting.