131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[16:58]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þörf á talsvert mikilli einbeitingu til að átta sig á því hvað menn eru að fara hér því menn eru að ræða um mjög marga hluti. Í fyrsta lagi að það eigi að bókfæra skuldbindingarnar sem skuldir. Sammála. Það er rétt, þannig verða þær sýnilegar.

Síðan segir hv. þingmaður að við séum að tala hér um afmarkað mál, stofnstyrki og styrki til tiltekinna framkvæmda, og að við eigum ekki að setja það í allt of náið samhengi við hina almennu þróun sem við erum að vara við. Ég segi að það sé ekki hægt að slíta þetta tvennt í sundur. Ef við ætlum að reyna að sporna gegn þessari þróun, þessari einkaframkvæmdaþróun hjá hinu opinbera, þurfum við að setja einhverja bremsuborða á bremsurnar og einhverja þröskulda í veg fyrir framgangi og þessari framvindu sem flæðir áfram. Það gætum við gert með þessu móti. Ef sveitarfélög sem reka þessi fyrirtæki á eigin vegum nytu styrkjanna en ekki hin sem fara út á þá braut sem hv. þingmaður er að vara við, og hv. þm. Gunnar Birgisson einnig, segir að sé glapræði, erum við farin að hafa áhrif á þróunina. Ef við hins vegar tökum allar slíkar hömlur burtu, sviptum þeim öllum brott, gerum við það ekki. Mér finnst þetta vera alveg augljóst mál.