131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[17:00]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þær framkvæmdir sem við erum að ræða um nú eru ekki nema lítið brot af þeirri einkavæðingu og þeirri þróun sem er í gangi. Hvort við samþykkjum þetta eða ekki skiptir ekki máli. Ég sé ekki að það skipti neinu máli.

Hins vegar ef eftirlitsnefnd um fjárræði sveitarfélaga færi að færa inn í bækur og krefjast þess að það yrði fært inn í bækur núvirtar greiðslur í framtíðinni og árlega greiðslur fimm eða tíu ár fram í tímann, þá er það bara nákvæmlega eins og þegar sveitarfélagið tekur lán. Ef sveitarfélög taka lán fyrir slíkum framkvæmdum eins og þau hafa gert hingað til, hvað gerist? Þá vex skuldin hjá þeim og árlega greiðslur vaxa. Þetta sést. Það nákvæmlega sama mundi gerast ef eftirlitsnefnd með fjárreiðum sveitarfélaga færi að tilmælum nefndarinnar, ef menn féllust á það sem ég er að segja, og færðu þetta sem skuld, það mundi ekkert breytast. Hvort sem menn taka lán eða fara í svona framkvæmd þá kæmi það nákvæmlega eins út og mundi stöðva þá þróun sem er í gangi, þar sem framkvæmdir, þessi stórmannvirki detta ofan af himnum og menn láta eins og enginn borgi það og guð almáttugur hafi bara gefið sveitarfélögunum þetta. Þá kæmi það í ljós að þetta er skuld nákvæmlega eins og þegar menn taka lán til slíks og þá fer að koma að spurningunni um hvort það sé gert með einkaframkvæmd eða sveitarfélögin geri það sjálf. Þá getur komið í ljós að ódýrara sé að gera það með einkaframkvæmd ef það er raunin eins og t.d. er með nokkra grunnskóla í Reykjavík.