131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[17:02]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er nú sú að einkaframkvæmdin hefur reynst vera dýrari, það er staðreynd. (Gripið fram í.) Hitt er annað mál að það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að ef skuldbindingarnar yrðu gerðar sýnilegar hefði það hamlandi áhrif. Ég er sammála þessu. Þetta held ég að sé alveg rétt. Það mundi vissulega hafa það.

Það sem ég er hins vegar að segja er að auk þess hefur reynslan sýnt fram á að einkaframkvæmdin er dýrari, nokkuð sem hv. þm. Gunnar Birgisson fór mjög rækilega í saumana á. Hún er dýrari. Hún er erfiðari fyrir skattborgarann. Ef við ætlum að gæta hagsmuna hans eigum við að hamla gegn þeirri þróun. (Gripið fram í.) Það ber okkur að sjálfsögðu að gera. Við erum ekki gæslumenn. Pétur H. Blöndal kann að skilgreina sig sem hagsmunagæslumann fyrir fyrirtæki sem vilja komast inn í þennan rekstur, (Gripið fram í: Nei, nei.) en við sem hagsmunagæslumenn fyrir skattborgarann eigum að hamla gegn þessari þróun.