131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[17:11]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eigum við ekki að fallast á að ekki sé stuðlað að hinu gagnstæða með frumvarpinu? Ég held að það sé staðreynd málsins. Við eigum að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Þó vil ég segja það að til eru þeir hlutir sem ég tel ekki vera leyfilegt fyrir sveitarstjórn sem kosin er til skamms tíma að ráðstafa til allrar framtíðar. Þá vísa ég t.d. í drykkjarvatnið. Mér finnst það ekki vera leyfilegt fyrir sveitarstjórn sem kosin er til fjögurra ára að ráðstafa um alla framtíð drykkjarvatninu í hendur einkaaðila. Það finnst heldur ekki hollensku ríkisstjórninni sem er búin að setja það í stjórnarskrá þess lands að óheimilt sé að einkavæða drykkjarvatnið. Við erum að tala um grundvallaratriði.

Þetta mál, eignarhaldið á grunnþjónustu í samfélaginu, skiptir okkur öll máli og um alla framtíð.