131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[17:42]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Á því er sú einfalda skýring að ég tók ekki þátt í 2. umr. um málið að ég var ekki á staðnum þann dag sem hún fór fram. En ég fylgdist með því hvernig málinu reiddi af úr nefnd og er sammála nefndarmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem, eins og fram kemur í nefndaráliti, er andvígur frumvarpinu. Það hefur því legið fyrir frá því að málið var afgreitt úr nefnd að við lögðumst gegn því.

Það kom ekkert svar við því í þessu stutta andsvari frá hv. þingmanni, enda geri ég ráð fyrir að hann eigi eftir að halda ræðu, af hverju gengið er lengra en upphafsmenn málsins fóru fram á. Er það ekki rétt sem fram kemur í ályktun Landssambands verslunarmanna að það sem setur málið af stað eru óskir um að hvítasunnudagur sé tekinn undan helgidagafriðuninni?

Varðandi hinn broslega rökstuðning vil ég segja í greinargerð frumvarpsins um ójöfnuðinn, að það sé svo mikið óréttlæti að tilteknir skilgreindir þjónustuaðilar — sem sérstaklega eru hugsaðir vegna þeirra sem eru á ferðalögum á helgidögunum — geti veitt lágmarksþjónustu eins og sjoppur. Og þó að þar sé hægt að kaupa mjólk og brauð sé það svo voðalegt vandamál að þess vegna verði að opna alla verslunina í Reykjavík. Ég tek ekki undir þetta. Það væri þá frekar að fara betur yfir það og endurskilgreina e.t.v. þá lágmarksþjónustu sem menn teldu rétt að möguleg væri þá daga, fyrst og fremst vegna þeirra sem eru á ferðalögum eða hafa skilgreindar þarfir sem menn vilja koma til móts við á þeim dögum, eins og auðvitað lyfjabúðir, bensínstöðvar og bifreiðastöðvar. Það eru skiljanleg og augljós rök fyrir því. En það þýðir ekki að öll matvöruverslunin og allir stórmarkaðir í landinu þurfi að vera opnir.

Ég er því ófeiminn við að ræða röksemdafærslu þá, ef röksemdafærslu skyldi kalla, sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu og bíð enn eftir svörum um það (Forseti hringir.) af hverju gengið er lengra en beðið var um.