131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[17:46]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel samt sem áður að engin haldbær rök hafi komið fram fyrir því að ganga þurfi svona langt og lengra en óskað mun hafa verið eftir í upphafi þegar menn fóru af stað með þetta með hvítasunnudaginn. Ég held að þær þarfir sem menn tengja fyrst og fremst við það fólk sem er þá á ferðinni og þarf af þeim sökum bensín eða lyf og getur þá mögulega keypt sér lágmarksdagvöru í þeim samsettu einingum sem þannig eru upp byggðar og sérstaklega við þjóðveginn, vegna fólks sem er á ferðinni, réttlæti ekki að menn fari út í þessa rýmkun sem snýst um að þúsundir starfsmanna í viðbót missa helgidaga sína.

Við vitum hvernig það er, að ef einn fer af stað og ákveður að hafa opið á páskadag og föstudaginn langa, eða hvað það nú er, þá telja hinir sig knúna til að gera hið sama. Þetta gengur yfir línuna. Það sjáum við hér á höfuðborgarsvæðinu, að þegar einn fer að gefa mjólk eða selja á eina krónu þá telja hinar keðjurnar sig knúnar til að gera hið sama. Þannig er þetta. Þess vegna er augljóst mál að þetta brotnar algerlega niður og í öllu falli er ljóst að starfsfólk getur þá ekki lengur treyst á að eiga þessa frídaga.

Hvers vegna í ósköpunum á að eyðileggja páskana fyrir þeim þúsundum verslunarmanna sem hafa getað treyst því að eiga þá frídaga, langa samfellda frídaga sem verið hafa frá miðvikudegi og fram á mánudag, a.m.k. að föstudagurinn langi og páskadagurinn væru þar örugglega í friði? Ég sé ekki rökin fyrir því. Ég held að þörfin sé ekki til staðar til að standa þannig að málum. (Forseti hringir.) Ef einhver vandi er þarna mætti leysa hann með öðrum og vægari ráðstöfunum en þessum.