131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum.

240. mál
[18:26]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil segja fáein orð í tilefni af þingsályktunartillögunni. Skoðun mín er sú að grunnhugsun í þingsályktunartillögunni eigi fullt erindi og að löngu sé kominn tími til þess að menn setjist yfir þá fornu stefnu sem gilt hefur í landinu sem byggist nánast á því að styðja fyrst og fremst við tvær búgreinar í landinu og er auðvitað allt of einhæf auk þess sem öllum hefur verið ljóst ákaflega lengi að það kæmi að þeim degi að stuðningurinn sem viðhafður hefur verið geti ekki gengið upp gagnvart þeim alþjóðasamningum sem við höfum tekið þátt í með öðrum þjóðum að skapa. Það þýðir auðvitað að menn verða að breyta fyrirkomulaginu.

Ég hef alltaf haft þá skoðun að fyrirkomulagsbreytingin ætti að vera í svipuðum dúr og hér er lagt til. Ég hef að vísu orðað það þannig að stuðningurinn ætti að breytast í stuðning við atvinnulíf og búsetu í sveitum. Það getur verið erfitt að leggja línurnar, hvar þær eigi að markast gagnvart þeim stuðningi sem þar yrði og þeim atvinnugreinum sem kæmu til greina, en mér finnst að fleira en bara búvöruframleiðsla gæti komið þar til mála.

Mér finnst að fyrst og fremst eigi að líta á þetta sem leið til að styðja við atvinnulíf í strjálbýli, styðja við að landið sé nýtt, styðja við það að auðlindir okkar séu nýttar. Búsetan skiptir þar gríðarlega miklu máli og á henni byggist líka að hægt sé að nýta auðlindirnar, vegna þess að það er ekki hægt að búa almennilega í neinni sveit nema þar sé þjónusta, skólakerfi og það sem til þarf til að fólk geti lifað eðlilegu fjölskyldulífi. Þess vegna eru fleiri atvinnuvegir sem þurfa að blómgast en bara búvöruframleiðsla á viðkomandi svæðum. Þetta held ég að þurfi að gerast hraðar en menn hafa talið að þyrfti að gerast fram að þessu.

Við fengum fréttir af því á síðasta vetri að um þetta leyti á þessu ári, jafnvel fyrr, yrðu komnar niðurstöður í alþjóðasamninga hvað varðar möguleika til stuðnings við búvöruframleiðslu.

Ekki hafa þeir samningar enn þá litið dagsins ljós en mér skilst að eitthvað sé setið við í þeim málum, það gæti því svo sem komið að því fyrr en seinna að taka þyrfti á þessum málum. Menn létu sem þeir vissu ekki af því að þessar samningaviðræður væru fyrirhugaðar og stæðu yfir þegar gengið var frá samningum við mjólkurbændur á síðasta þingi sem ekki þurfti að gera fyrr en á komandi hausti. Gott og vel. Það var gert. Ég taldi reyndar að ekki hefði átt að gera það, menn hefðu átt að skoða málin betur og skoða hvort ekki þyrfti að stíga fleiri skref eða stærri til að aðlaga stuðninginn að þeirri framtíð sem er að koma.

Auðvitað er margt að breytast og samgöngurnar í landinu hafa verið að breyta hlutunum miklu meira en kannski allt annað. Þær eru að verða til þess að alls konar starfsemi og alls konar búseta er að þróast í landinu sem ekki gat það áður og það styður auðvitað við það í framtíðinni að mannlíf verði í sveitum, þótt það sé ekki endilega byggt á því að menn fari að framleiða búvörur. Þetta getur allt saman stutt hvað annað.

Stuðningur við búvöruframleiðslu, þ.e. þær tvær greinar fyrst og fremst sem ég nefndi áðan, hefur verið mikill á mælikvarðana sem menn nota til að meta það. Íslendingar hafa verið að borga mjög hátt gjald til að styðja við búvöruframleiðsluna. Hvort menn eru tilbúnir að auka það eitthvað eða halda í horfinu meðan kerfinu er breytt skal ég ekkert um segja, en ég held að ekki sé undan því vikist að breyta kerfinu. Fyrir nú utan það að ýmislegt er með þeim hætti að ekki er hægt að sætta sig við það. Það sem hv. 1. flutningsmaður ræddi áðan, þ.e. verðlagið sem komið er á kvótana í landbúnaði, segir okkur að þarna sé nú farið að hrikta býsna mikið í kerfinu sjálfu. Ef það er þannig að mönnum finnist það ganga upp að kvótar í landbúnaði séu seldir á þvílíku verði að það taki 12–15 ár að ná fjárfestingunni til baka, ef það eru réttar upplýsingar, þá er verðlagið á þeim kvótum sjálfsagt farið að nálgast það að þeir sem hefðu hug á því að framleiða í samkeppni við þessa framleiðslu geti gert það án stuðnings frá ríkinu, einfaldlega vegna þess að grunnfjárfestingin er orðin svo gríðarlega há sem felst í kvótunum.

Það er mikið umhugsunarefni þegar gerður er samningur til fimm, sex, sjö ára eða hvað það hefur nú verið, að menn séu á grundvelli slíkra samninga tilbúnir til að fjárfesta í kvótum á svo háu verði að 12–15 ár þurfi kannski til að ná þeirri fjárfestingu til baka. Það væri a.m.k. ekki talið alls staðar skynsamlegt en það virðist vera að menn hafi fullt traust á því að íslensk stjórnvöld haldi áfram á sömu braut og að þeir fái tækifæri til að ná til baka þeim fjárfestingum sem þarna eru á ferðinni.

Ég veit svo sem ekkert hvort sú tilraun sem var verið að kynna okkur um helgina og felst í því að fara að framleiða osta utan greiðslumarks muni takast, en það kemur væntanlega í ljós.

Ég sé að tími minn er að renna út. Ég vildi koma hér og taka jákvætt undir þetta. Ég tel að sé löngu kominn tími til að menn setjist yfir þessi mál og horfi til framtíðar, framtíðar sem menn sjá nokkuð skýrt að verður í þeim dúr sem hér er talað um.