131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum.

240. mál
[18:35]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur mælt fyrir tillögu til þingsályktunar sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum um að Alþingi kjósi nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökunum til ráðuneytis og samstarfs við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum.

Ég held að einmitt í þessum töluðu orðum sé þetta augljóslega mjög brýnt. Sú umræða sem nú fer fram og það sem er að gerast á vettvangi byggðar, búsetu og landbúnaðar kallar á að þessi mál séu tekin til skoðunar og þeim sniðinn sá rammi og þau markmið sett sem við viljum gagnvart byggð og búsetu í sveitum. Byggð, búseta og atvinnulíf í sveitum vítt og breitt um landið er í sjálfu sér auðlegð, gríðarlega mikil auðlegð. Við svo bætist verndun og nýting þeirra náttúrulegu auðlinda og möguleika sem felast í að varðveita og nytja þær auðlindir.

Sú þróun sem við horfum upp á þessa dagana er ekki í þá veru að styrkja eða efla byggð og búsetu í sveitum né heldur atvinnulíf þar. Þess vegna flytjum við tillögu, herra forseti, um að Alþingi komi hér sameinað að. Afar mikilvægt er að einhugur og sátt ríki um stefnuna gagnvart atvinnu og búsetu í sveitum. Reynt hefur verið að ná sem víðtækastri samstöðu þar um og sú samstaða má ekki bresta. Þess vegna höfum við flutt tillögu, ekki aðeins þá tillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir, heldur höfum við flutt fleiri tillögur sem liggja fyrir þinginu og hefur ekki tekist að mæla fyrir enn, þar á meðal frumvarp til breytinga á jarðalögum, sem taka á þeirri þróun sem við stöndum nú frammi fyrir að einstaklingar eða samtök, eignarhaldsfélög eða fyrirtæki ástunda nú raðuppkaup á jörðum, ekki einungis að kaupa jörð sér til frístundabúskapar eða til sumarbústaða, heldur er um raðuppkaup, fjöldauppkaup á jörðum að ræða. Það eru einnig uppkaup á jörðum sem eru jafnvel í fullum rekstri í hinum ýmsu landshlutum af sama aðila.

Þessi þróun er hvergi leyfð í nágrannalöndum okkar. Dönsk lög kveða t.d. stíft á um að sami aðili megi ekki eiga hlut í nema ákveðnum fjölda, hámarksfjölda jarða, tveim til fjórum jörðum. Það er mjög rík búsetuskylda á jörðunum og krafa um heilsársbúsetu og að land sé nýtt og varðveitt af þeim sem á landið. Það frumvarp sem við leggjum fram til breytinga á þeim lögum miðar einmitt að því að koma í veg fyrir slík raðuppkaup.

Í hvert einasta sinn sem jörð fer úr ábúð eða búskapur leggst af og fólk flytur brott stendur samfélagið veikara eftir. Ef slíkt gerist fyrir tilstilli kaupsýslumanna sem hugsa fyrst og fremst um að fjárfesta í jörðum en horfa til búrekstrar sem aukagetu eða líta á hana einungis sem leið til að fá fyrr arð af fjárfestingunni, verður að spyrna við fæti. Þetta er líka alvarlegt mál fyrir sveitarfélögin sem hafa ekki bolmagn til að kaupa jarðirnar í því skyni að halda þeim í byggð þar eð útsvarstekjur þeirra minnka yfirleitt vegna þessa.

Á hinn bóginn er ekki hægt að áfellast þá sem selja jarðir eða eru boðnar háar upphæðir fyrir einstaka jarðir en lagaumgerð landbúnaðarins hlýtur fyrst og fremst að lúta að þeim sem vilja búa á viðkomandi svæðum og fara höndum um og nytja á sjálfbæran hátt þær auðlindir sem þar er um að ræða en ekki að þeim sem eru að hætta búskap eða hafa atvinnu af því að braska með jarðeignir, eins og við nú erum farin að horfa því miður fram á í æ ríkari mæli, lagaumgerðin á einmitt ekki að stuðla að því.

Þá hefur einnig verið minnst á, og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist einnig á það, að við höfum líka flutt frumvarp til breytinga á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem tekur til þess að sett skuli hámark á bústærðir eða framleiðslumagn sem fær að njóta beingreiðslna undir núverandi formi. Núna getur sami aðili safnað beingreiðslum á eina hendi án þess að stunda þar búskap eða að búreksturinn getur verið stundaður og rekinn af leiguliðum. Sá sáttmáli sem hefur verið gerður á milli ríkisins og bænda hvað þetta varðar miðar að því að stuðla að dreifðri búsetu en ekki að samþjöppun í búrekstri. Það sem nú er verið að gera að með því að safna framleiðsluréttinum á örfárra manna hendur er verið að misnota það samkomulag sem gert hefur verið á milli ríkis og bænda og getur ekki leitt til annars en ófarnaðar, þetta kerfi molar sig sjálft innan frá. Þess vegna verður að stöðva við og tillögur okkar lúta að því að svo sé gert.

Hér var líka lítillega minnst á þá alþjóðlegu samninga sem nú er verið að vinna að og snerta mjög landbúnaðinn. Þar kemur skýrt fram að krafa verður gerð um að framleiðslutengdir styrkir verði lækkaðir mjög verulega, en hins vegar verður gefið svigrúm til að taka upp aðrar stuðningsaðgerðir við búsetu og framleiðslu í sveitum sem lýtur þá meira að umhverfissjónarmiðum, vistvænni framleiðslu og fleiru.

Þess vegna er mjög brýnt að við setjum þegar í stað í gang vinnu til þess að aðlaga okkur, taka á þessum aðsteðjandi vanda og aðlaga okkur að þeirri framtíð sem er handan við hornið í því augnamiði að búa hér áfram við sterkan og öflugan íslenskan landbúnað.