131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum.

240. mál
[18:51]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um þessa tillögu og þakka undirtektir talsmanna Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins.

Ég sakna að sjálfsögðu viðveru og þátttöku fulltrúa stjórnarflokkanna við umræðuna. Það er því miður þannig, herra forseti, að mér finnst sem æ sjaldnar fari fram hér á Alþingi grundvallarumræður, t.d. um stöðu landbúnaðarins og málefni honum tengd. Öðruvísi mér áður brá þegar mönnum þótti þessi samkunda undirlögð af bændum. Hér var annar hver maður og jafnvel rúmlega það stórbóndi og hinir voru þá prestar eða sýslumenn. Störf Alþingis réðust þá meira og minna af árstíðum og þörfum búskaparins. Nú er öldin önnur. Það er líka öldin önnur þegar þannig stendur á þegar hér er loksins rædd tillaga um almenna stefnumótun á sviði landbúnaðar að það sést hvergi nokkurs staðar framsóknarmaður. Ég get svarið fyrir að það er ekki framsóknarmaður í þessum sal. Ég þykist þekkja þannig til. Hér eru heldur ekki fulltrúar frá Sjálfstæðisflokknum. Gaman væri að fá að heyra hvað menn eru að hugsa á þeim bæjum. Hvað leggja þeir til, ef eitthvað, ef nokkuð? Ég hef lítið orðið var við það. Það er ekki nóg að hafa landbúnaðarráðherra sem spjarar sig ágætlega á árshátíðum, sem kemst stundum hnyttilega að orði og getur látið menn hlæja að sér, jafnvel í þingsalnum. Hvar er í gangi stefnumótun sem vísar veginn til nýrrar framtíðar í anda þess sem þessi tillaga gerir og þeirra hugmynda sem aðrir ræðumenn hafa reifað, t.d. hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson núna áðan?

Ég held að mönnum hljóti að vera ljóst að það er brýn þörf á endurskipulagningu þessara mála. Það er augljóst að þetta fer illa ef menn ætla að keyra fram af brúninni á grundvelli óbreyttrar stefnu, sem var í raun mótuð og síðan hefur verið breytt allt of handahófskennt að mínu mati af og til á síðustu 10–15 árum. Það gengur ekki að menn láti eins og þeir viti ekki af því sem er að gerast eða því sem er fram undan vegna fyrirsjáanlegrar niðurstöðu í alþjóðasamningum um stuðning við landbúnað.

Eins og kom fram hér áðan þá gera menn engu að síður nýja búvörusamninga, t.d. um mjólkurframleiðslu, þar sem þeir ýta því alveg frá sér að leggja a.m.k. grunninn að eða undirbúa þá kerfisbreytingu sem auðsjáanlega þarf að verða. Nú er uppi á borðum, í viðræðum hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í þeirri lotu sem upphaf sitt átti í Doha og Cancún, sem kennd er við þá ágætu staði, að svonefndur framleiðslutengdur stuðningur við landbúnað eða ígildi hans í formi innflutningsverndar verði jafnvel lækkaður um helming. Það þýðir að vísu ekki að menn þurfi beinlínis að draga úr stuðningi við greinina sem því nemur en menn verða þá að færa hann yfir á annað form. Þar koma til álita, sem er ekki síst líklegt að menn reyni, að velja leiðir af því tagi sem hér er talað fyrir, þ.e. svokallaðar grænar greiðslur, greiðslur sem ekki eru með beinum hætti tengdar við framleidda einingu eða hafa á annan hátt, eðli sínu samkvæmt, framleiðslu- eða samkeppnisbjagandi áhrif. Búsetutengdar greiðslur af þessu tagi, byggðastyrki, mætti skilgreina sem svo og væri heimilt að viðhafa til stuðnings atvinnulífi og búsetu á þeim svæðum sem flokkast samkvæmt regluverki t.d. Evrópusambandsins sem byggðaþróunarsvæði.

Það er ljóst að það eru til leiðir og úrræði sem uppfylla bæði nokkuð fyrirsjáanlegar niðurstöður í viðræðum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og samkeppnis- og byggðastuðningsreglur Evrópusambandsins sem við gætum fært okkur yfir í. En það bólar ekki á neinni viðleitni í þá átt.

Það er slæmt að á meðan keyra menn óbreytt kerfi og þróunin í landbúnaðinum verður með þeim afleiðingum sem við horfum upp á, að núverandi kerfi er beinlínis fjandsamlegt eðlilegri nýliðun í greininni og ýtir undir samþjöppun. Auk þess tel ég að færa megi sterk rök fyrir því að menn hafi misst tökin á þeim málum, þar ríki bókstaflega stjórnlaus vitleysa.

Ég hef efasemdir um þær væntingar sem liggja að baki hjá þeim mönnum sem sópa að sér bújörðum og kaupa upp kvóta á því óheyrilega verði sem í gangi er. Ég sé ekki að menn eigi eftir að uppskera mikið úr þeim fjárfestingum nema eitthvað annað vaki fyrir þeim, þeir haldi að þeir nái verðmætum sínum til baka með öðrum hætti en þeim að á jörðunum verði stundaður búskapur eða framleiðslurétturinn verði nýttur til framleiðslu í framtíðinni. Reikna menn kannski með því að geta með einhverjum hætti losað út dulin verðmæti? Hver gætu þau verið? Þau gætu legið í afurðastöðvum landbúnaðarins, ef þeir koma höndum yfir eigið fé þeirra, sérstaklega í mjólkuriðnaðinum. Þau gætu einnig legið í stórkostlega hækkuðu verði á landi á komandi áratugum þannig að um sé að ræða spekúlatífa fjárfestingu, menn veðji á að þeir geti unnið lottóvinninga og grætt fé. En þá getur ekki verið að menn horfi fyrst og fremst á möguleika á arði af fjárfestingunni á grundvelli hefðbundins rekstrar og búskapar á viðkomandi jörðum og á grundvelli viðkomandi framleiðsluréttar. Ég fæ það dæmi ekki til að ganga upp. Auk þess held ég að það sé ekki æskileg þróun að framleiðslan færist úr hendi fjölskyldueininga, eininga af hóflegri stærð, og þjappist saman á verksmiðjubú með aðkeyptu vinnuafli eða leiguliðum, með þeim áhrifum sem það getur haft, félagslega, menningarlega og hvað varðar umhverfisþætti og hollustu og heilnæmi vörunnar.

Ég vil svo víkja að einum þætti enn í þessu máli, sem snýr að rökstuðningnum fyrir því að fara þessa leið, einhvers konar búsetutengds grunnstuðnings við búsetu og búskaparumsvif í sveitum landsins. Með því næst jafnræði milli greina sem er engan veginn fyrir að fara í dag. Eins opnast miklu fjölbreytilegri og margvíslegri þróunarmöguleikar í atvinnumálum og nýsköpun í búskap í sveitum en eru til staðar í dag. Menn verða að setja sig í spor ungs fólks sem veltir fyrir sér mögulegri búsetu í sveit þar sem kostirnir eru annaðhvort að reyna að kaupa sig inn í styrkjakerfið í þeim tveimur greinum sem njóta framleiðslustyrkja, dýrum dómum, og fá aðgang að þeim stuðningi, eða að hefja annars konar atvinnustarfsemi án nokkurs stuðnings. Ef við göngumst inn á að tilgangur þessa stuðnings sé öðrum þræði sá að hlúa að búsetunni, er þá mjög skynsamlegt að engin fyrirgreiðsla, enginn stuðningur af sambærilegum toga, sé til staðar handa ungu fólki sem vill t.d. byggja upp ferðaþjónustu eða önnur búskapartengd umsvif í sveitum? Ég held ekki.

Í raun og veru er mesta furða hversu lítill ófriður hefur verið um það að tvær tilteknar búgreinar væru studdar með þessum hætti en aðrar alls ekki, að menn hafi þrátt fyrir allt látið þetta yfir sig ganga í öðrum greinum. Ekki ætla ég að kvarta undan því, auðvitað eru ærnar sögulegar og efnislegar ástæður fyrir því að þessi stuðningur er til staðar, hann er arfur frá liðinni tíð og um það mætti svo sem margt segja en það þýðir ekki að þessir hlutir eigi að haldast óbreyttir um aldur og ævi.

Ég held að síðustu að það væri ákaflega brýnt og þarft ef hægt væri að koma af stað á nýjan leik vinnu og samstarfi aðila um mótun stefnu á þessu sviði þar sem bændur og samtök þeirra eiga að sjálfsögðu að vera í forustu, en það væri mjög æskilegt ef aðrir aðilar, þ.e. ríkisvaldið, stjórnmálalífið og t.d. aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar neytenda, kæmu að því borði. Ef hægt væri að endurvekja eitthvert slíkt samstarf um stefnumótun og nýjan grundvöll þessarar greinar, sem er mjög sérstök, er í mjög sérstakri aðstöðu í landinu, er alveg miðlæg í þróun hinnar dreifðu búsetu og strjálbýlisins eins og það hefur litið út, fram hjá því verður ekkert horft hvað sem menn segja. Og einhvers konar starf í anda þess sem tókst í framhaldi af og á grundvelli þjóðarsáttarinnar m.a. og lagði grunn að búvörusamningunum 1991 sem gjörbreytti auðvitað þessu umhverfi þar sem menn tóku höndum saman um að vinna sig út úr þeim gríðarlegu ógöngum sem landbúnaðarkerfið var þá komið í með mikilli offramleiðslu vöru umfram þarfir innlends markaðar sem með stórkostlegum útflutningsuppbótum var flutt út, stundum á markaði sem gerðu varla betur en skila heim flutningskostnaðinum og umsýslukostnaðinum við útflutninginn sjálfan en borguðu stundum lítið og jafnvel ekkert upp í sjálfan framleiðslukostnað vörunnar.

Þannig var ástandið á þeim tímum og svo sársaukafull að mörgu leyti sem sú tiltekt var, þá var hún óumflýjanleg. Að því leyti standa Íslendingar nú í öðrum sporum og betur að vígi en margar aðrar þjóðir, sem þurfa að takast á við breytingarnar sem í vændum eru á grundvelli samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, að hér eru ekki útflutningsuppbætur sem þurfa þá að hverfa, en það er nokkuð ljóst að ein af meginniðurstöðum samningaviðræðnanna þarna stefnir í að verða veruleg lækkun ef ekki hreinlega afnám útflutningsuppbóta. Ég held að það sé tiltekt í alþjóðaviðskiptakerfinu með búvörur sem er löngu tímabær.

Staðreyndin er sú að það eru útflutningsuppbæturnar og niðurgreiðslur á útflutningi sem skekkja myndina umfram allt annað og valda þeim erfiðleikum sem við er að glíma í viðskiptakerfinu með landbúnaðarvörur, ágreiningi og núningi milli þróunarríkjanna og þróuðu ríkjanna, milli landbúnaðarframleiðsluríkjanna með Ástralíu, Nýja-Sjáland, Brasilíu, Argentínu og fleiri lönd í broddi fylkingar og svo hinna sem eru meira innflytjendur þessarar vöru. Þar leika lykilhlutverk gríðarlegar niðurgreiðslur eða gríðarlegir styrkir og útflutningsuppbætur Bandaríkjamanna á korni en þá er víst komið út í svolítið aðra sálma, herra forseti, og þó auðvitað ekki af því að allt er þetta samhangandi.

Ég endurtek þakkir mínar fyrir umræðuna og undirtektir sem tillagan hefur fengið. Ég harma að fulltrúar stjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, skuli ekki hafa nokkurn skapaðan hlut til umræðunnar að leggja og ekki láta sjá sig, en kannski er það af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa ekkert fram að færa og þá verður auðvitað að búa við það.