131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Hlutur húsnæðiskostnaðar í neysluverðsvísitölu.

527. mál
[12:02]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Verðbólga mælist yfir viðmiðunarmörkum Seðlabankans hvern mánuðinn á fætur öðrum og verðbólguspár og verðbólguvæntingar eru á uppleið. Þetta gerist þrátt fyrir verulegar hækkanir bankans á stýrivöxtum og það að hækkandi raungengi krónunnar að undanförnu ætti að skila sér verulega í lækkandi verðlagi á innfluttri vöru. Forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru miðaðar við að verðbólga fari ekki yfir ákveðin viðmiðunarmörk Seðlabankans og því ljóst að vaxandi verðbólga nú kann að reynast afdrifarík hvað varðar stöðugleika á vinnumarkaði.

Gengi krónunnar hefur styrkst mikið að undanförnu, raungengisstig er verulega hátt og hlýtur að teljast langt yfir jafnvægismörkum. Gengisvísitalan fór nú og hefur verið fyrir neðan 110 stig, hún er í 108 og 107. Bandaríkjadollari hefur kostað í kringum 61 kr. Tap útflutningsgreina er tilfinnanlegt, einkum ef þær selja vörur sínar að öllu eða verulegu leyti í Bandaríkjadollurum. Ljóst er að þeim mun lengur sem þetta ástand varir og útflutnings- og samkeppnisgreinar þurfa að búa við svo óhagstæð skilyrði þeim mun meiri verða áhrifin.

Verulegur hluti verðlagshækkana að undanförnu á rót sína að rekja til mikilla hækkana á fasteignamarkaði. Þróun fasteignaverðs er lögð til grundvallar við útreikninga á vísitölu neysluverðs. En á það hefur verið bent að slík viðmiðun geti verið gölluð. Snögg hækkun á fasteignaverði þýðir auðvitað ekki að allir geti selt fasteignir sínar á hinu nýja og háa verði tafarlaust en eignaaukningin hefur hins vegar áhrif á mat fólks á eignastöðu sína og eyðslugetu. Enn fremur er ekki víst að þættir sem koma ættu til lækkunar eins og veruleg lækkun vaxta geri það eins og útreikningum er háttað í dag. En í því tilviki mun að ég best veit verða stuðst við allt að fimm ára meðaltöl í vöxtum á húsnæðismarkaði í vísitölunni. Ástæða er því til að ætla að hækkun húsnæðiskostnaðar sé ýkt upp eins og stendur og valdi því að verðbólgan mælist mun meiri en ella. Víða annars staðar er stuðst við þróun húsaleigu í verðmælingum af þessu tagi en ekki fasteignaverð og er lagt til að breytingar í þá átt verði undirbúnar hér. Víst er að húsaleiga endurspeglar betur raunverulegan kostnað af því að búa í húsnæðinu og er betri og hugsanlegar viðmiðanir á þessu sviði til að ganga inn í vísitölu neysluverðs. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra og ábyrgðarmann efnahagsmála:

1. Er fyrirhugað að endurskoða hlutfall húsnæðiskostnaðar við útreikning á vísitölu neysluverðs?

2. Kemur til greina að Seðlabankinn miði við aðra vísitölu en núverandi neysluverðsvísitölu við framfylgd þess verðbólgumarkmiðs sem honum hefur verið sett lögum samkvæmt?