131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Hlutur húsnæðiskostnaðar í neysluverðsvísitölu.

527. mál
[12:05]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Jón Bjarnason, hreyfir hér mikilvægu máli sem hefur verið mjög til umræðu undanfarið og ég gerði m.a. að umtalsefni á ársfundi Seðlabanka Íslands. Húsnæðiskostnaður í vísitölu neysluverðs, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, er útreiknuð stærð og endurspeglar vægi þess kostnaðarliðar í útgjöldum heimilanna. Sá liður breytist mánaðarlega í takt við fasteignaverð og langtímaraunvexti. Mikil hækkun húsnæðisverðs að undanförnu hefur valdið því að hlutfall húsnæðiskostnaðar hefur hækkað, frá því að vera um það bil 12% af heildarframfærslukostnaði í ársbyrjun 1998 í tæplega 20% í ársbyrjun 2005.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar byggjast útreikningsaðferðirnar á almennt viðurkenndum alþjóðastöðlum sem ekki stendur til að breyta. Hins vegar er mismunandi aðferðum beitt, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, við útreikninginn eftir löndum og reyndar erum við ein á báti hvað þessa aðferð varðar. Það þýðir einfaldlega að verðbólgumælingin hjá okkur er ekki nákvæmlega eins og hjá öðrum þjóðum. Mér hefur hins vegar skilist að Evrópuþjóðir stefni almennt að því að taka upp svipaðar aðferðir og við notum innan fárra ára.

Í seinni lið fyrirspurnarinnar er spurt hvort til greina komi að Seðlabankinn miði við aðra vísitölu en núverandi neysluverðsvísitölu við framfylgd þess verðbólgumarkmiðs sem honum hefur verið sett. Ég hef áður sagt að mér finnst vel koma til greina að rýmka þau ákvæði yfirlýsingar Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar frá árinu 2001 um að verðbólgumarkmið bankans skuli einungis taka mið af 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs. Í þessu felst engin slökun gagnvart peningamálastjórn Seðlabankans. Þvert á móti tel ég að bankinn eigi að horfa á sem flesta mælikvarða við vaxtaákvarðanir sínar jafnt verðmælikvarða eins og hann gerir og aðra efnahagslega mælikvarða, þar með talin þróun fasteignaverðs. Ég tel hins vegar að verðmælikvarði sem sýnir 4,7% árshækkun þegar þróun fasteignaverðs er meðtalin er helmingi minni hækkun að henni frátalinni sé ekki endilega besti mælikvarðinn á almennt þensluástand í efnahagslífinu. Þess vegna vil ég beita mér fyrir því eins og fram kom á ársfundi Seðlabankans að fram fari sérstök skoðun á því hvort sú viðmiðun sem Seðlabankanum er gert að lúta hvað varðar verðbólgumarkmið sé of þröng og mun ég ræða það við Seðlabankann frekar á næstunni.