131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

457. mál
[12:23]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Þar sem ég var formaður téðrar nefndar sem er til umræðu í dag er mér bæði ljúft og skylt að svara fyrir hana. Það voru ýmsar ástæður sem lágu að baki því að nefndin gat ekki lokið starfi sínu fyrr en í síðasta mánuði en aðalatriðið er að skýrslan er komin fram og að í henni eru mjög mörg góð markmið, góðar tillögur sem eru rökstuddar á ágætan hátt. Ég vísa því á bug að þetta séu úreltar upplýsingar. Ýmsir kaflar hafa verið endurskoðaðir frá upphafi. Sérstaklega vil ég þá benda á kafla sem lýtur að heilbrigðisráðuneytinu og það má geta líka um það að margt hefur færst til betri vegar frá því að tillagan upphaflega kom fram og sem betur fer er íslensk ríkisstjórn og Alþingi alltaf að bæta hag fjölskyldnanna í landinu.