131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

457. mál
[12:26]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Í skýrslu forsætisráðherra sem lögð var í hólf þingmanna kemur fram að 130 einstaklingar, m.a. helstu sérfræðingar á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu sem um málefni barna fjalla, hafa komið að þessu verkefni sem Alþingi ályktaði um fyrir fjórum árum. Heimildir um gögn og rannsóknir sem stuðst hefur verið við eru bæði innlendar og erlendar og eru 95 talsins. Verkefnið hefur tekið fjögur ár og það er því fullkomlega óásættanlegt að forsætisráðherra hafi þá einu tillögu fram að færa að vísa málinu á nýjan leik í nefnd sem er að fjalla almennt um stöðu íslensku fjölskyldunnar.

Umboðsmaður barna hefur kallað eftir þessari framkvæmdaáætlun árlega sl. 10 ár. Umboðsmenn barna annars staðar á Norðurlöndunum hafa fyrir löngu síðan fengið slíka framkvæmdaáætlun að vinna eftir. Ég krefst þess að hæstv. forsætisráðherra fari að vilja Alþingis og ég átel harðlega verði það ekki gert. Það staðfestir fyrst og fremst að forsætisráðherra ræðir málefni fjölskyldunnar og barna bara á tyllidögum, í áramótaávörpum og rétt fyrir kosningar en á borði þegar til kastanna kemur eru þetta bara orðin tóm í munni forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki svarað ósk minni um það að skýrslan sem lögð var í hólf þingmanna verði tekin til sérstakrar umfjöllunar á þingi. Ég hef formlega óskað eftir því og farið fram á það að forsætisráðherra geri Alþingi formlega grein fyrir þessari skýrslu.

Forsætisráðherra hefur heldur ekki svarað því hvort hann muni leggja fram framkvæmdaáætlun um þetta verk. Það væri raunar miklu nær að þessi skýrsla sem lögð verður í hólf þingmanna verði falin umboðsmanni barna til úrlausnar og að umboðsmaður barna vinni slíka framkvæmdaáætlun til fimm ára á grundvelli skýrslunnar sem nú liggur fyrir sem síðan yrði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og staðfestingar. Ég gagnrýni það harðlega að forsætisráðherra hunsi þau vinnubrögð sem Alþingi (Forseti hringir.) hefur lagt til í þessu máli í þeirri tillögu sem lögð var fyrir Alþingi (Forseti hringir.) fyrir fjórum árum.