131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

457. mál
[12:29]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talar eins og ekkert geti gerst í málefnum barna og ungmenna nema með hliðsjón af þessari þingsályktunartillögu, og eins og ekkert sé að gerast í málefnum barna og ungmenna í landinu. Sem betur fer á sér stað hvern einasta dag viðamikið starf að því er varðar börn og ungmenni og miklar framfarir hafa orðið á þeim sviðum. Ég vil t.d. nefna að forsætisráðuneytið hefur tekið upp samstarf við Velferðarsjóð barna og þjóðkirkjuna um átak sem heitir Verndum bernskuna og það starf er í fullum gangi. Nýlega hafa verið samþykktar tillögur á Alþingi um að stórhækka barnabætur sem verður til þess að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Á undanförnum árum hefur mikið starf verið unnið með því að efla menntun barna og ungmenna, styrkja skólana og efla forvarnastarf í landinu þannig að ég botna ekkert í því hvaða augum hv. þingmaður lítur það mikla starf sem hefur átt sér stað.

Hitt er svo annað mál að sífellt þarf að vera að vinna að þessum málum og framgangi þeirra. Það hefur verið gert og það verður gert áfram. En það verður ekki eingöngu gert, hvorki með nefndarstarfi né þingsályktunartillögum þó að það sé mjög mikilvægt að ræða þessi mál á Alþingi.