131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga.

627. mál
[12:35]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur lagt fyrir mig fyrirspurn um stöðu bænda innan Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Áður en ég svara spurningum er lúta að tölulegum upplýsingum langar mig að rifja upp tildrög þess að sérstakur sjóður var stofnaður og hefði þann tilgang að vera Tryggingasjóður vegna atvinnuleysis tiltekinna hópa sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Forveri minn í starfi skipaði nefnd til að kanna réttindi og skyldur sjálfstætt starfandi einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Það var mat nefndarinnar á sínum tíma að það væru sameiginlegir hagsmunir bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra að stofnaður yrði sérstakur sjóður þeim til handa. Væri þannig eðlilegt að þessar stéttir hefðu áhrif á réttindi sín og skyldur innan atvinnuleysistryggingakerfisins með aðild að stjórn og úthlutun bóta. Enn fremur var lagt til að reglur um skilyrði bótaréttar væru hliðstæðar þeim sem giltu um aðrar stéttir sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Á þessi rök féllst Alþingi á árinu 1997 er samþykkt var að stofnaður yrði sérstakur sjóður með sjóðstjórn er lög um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga voru samþykkt. Því hlutverki, hæstv. forseti, hefur sjóðurinn gegnt allar götur síðan.

Hlutur hverrar stéttar er sérgreindur innan deilda sjóðsins og greiddu bændur 18,7 milljónir inn í sjóðinn á árinu 1998, 19,9 árið 1999, 18,7 árið 2000, 14,4 árið 2001, 14,7 árið 2002, 11,7 árið 2003 og 11 millj. kr. á árinu 2004 eða samtals 109,1 millj. kr. Á sama tíma voru útgreiðslur til bænda eftirfarandi: 12 millj. kr. voru greiddar út á árinu 1998, 11,8 árið 1999, 7,6 árið 2000, 4,5 árið 2001, 6,6 árið 2002, 11,7 árið 2003 og 9,5 árið 2004 eða samtals 63,7 millj. kr.

Bændur greiða árlega um 1,7 millj. kr. að meðaltali í rekstrarkostnað sjóðsins eða um 60% af rekstri hans. Uppsöfnuð innstæða bænda nam 118 millj. kr. við lok ársins 2003. Er áætlað að þessi tala hafi numið um 120 millj. kr. í árslok síðasta árs.

Hæstv. forseti. Á árinu 2003 var ráðist í að breyta reglugerð um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga samanber reglugerð nr. 317/2003. Þar voru gerðar nokkrar breytingar á efni reglugerðarinnar sem þóttu leiða til rýmkunar á rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga. Eðli málsins samkvæmt eru þó áfram gerðar kröfur um að fyrir liggi upplýsingar frá hlutaðeigandi stofnunum um sannanlega stöðvun rekstrar. Verður ekki séð að lengra verði gengið í að rýmka rétt bænda til atvinnuleysistrygginga.

Í þessu sambandi hlýtur, hæstv. forseti, að vera nauðsynlegt að líta til tilgangs atvinnuleysistryggingakerfisins sem er að tryggja fólki lífsviðurværi ef það missir vinnu sína tímabundið. Á sama tíma er það gert að skilyrði að einstaklingarnir séu í virkri atvinnuleit og séu reiðubúnir að taka þeim störfum sem í boði eru. Enn fremur verður að horfa til þess að um er að ræða samtryggingakerfi sem er fjármagnað af tryggingagjaldi sem launagreiðendum ber að standa skil á. Er þeim fjármunum ekki ætlað að nýta til annarra hluta en greiðslu atvinnuleysisbóta.

Hingað til hefur verið litið svo á að það sé kostur þegar sjóðir eins og þessi hafa það svigrúm að safna í sjóð þegar atvinnuleysi er langt. Eru þeir þá betur í stakk búnir til að takast á við þá tíma er atvinnuleysi eykst og útstreymi úr sjóðnum sömuleiðis án þess að til komi hækkun á tryggingagjaldi eða aðrar sérstakar aðgerðir til að bæta stöðu þeirra. Það heyrir, hæstv. forseti, til undantekninga að framlög einstakra stétta sé sérgreint inni í samtryggingasjóði eins og Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga er upp byggður. Slíkt gildir t.d. ekki um þær stéttir sem greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Verður því ekki séð að sanngirni felist í því að bændur nytu þeirrar sérstöðu að unnt væri að greiða út framlög þeirra til atvinnuleysistrygginga til annars en greiðslu atvinnuleysisbóta.