131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga.

627. mál
[12:39]

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Mig langar að gera örstutta athugasemd við þetta mál og spurning mín í rauninni er: Hvað er landbúnaður? Er landbúnaður ekki atvinnurekstur og eigum við ekki að horfa til þess að landbúnaðurinn sé atvinnurekstur að öllu leyti og meðhöndla hann þá með tilliti til þessa með sama hætti?

Ef landbúnaðurinn er meðhöndlaður sem atvinnurekstur komumst við hjá þeim vandamálum sem hér er verið að tala um og ég hygg að við eigum að gera það. Það eru til mörg dæmi þess einmitt þegar um er að ræða hjón sem stunda landbúnað, að þessi sjóður kemur ekki að gagni t.d. við hjónaskilnað eða eitthvað ámóta sem kemur upp hjá hjónum vegna þess að þá er sá einstaklingur sem fer frá búrekstri ekki lengur bóndi, ekki skráður sem bóndi. Þess vegna eigum við að horfa til þess að landbúnaðurinn sé rekinn eins og hvert annað fyrirtæki á sérkennitölu.