131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga.

627. mál
[12:40]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er fátt um svör finnst mér í rauninni þegar kemur í ljós að greiðslurnar inn í sjóðinn frá bændum lækka ár frá ári og það gefur að skilja vegna þess að bændum fækkar, þeir eru að stofna einkahlutafélög og borga þar af leiðandi ekki inn í sjóðinn.

Ég tek undir með hv. þm. Kjartani Ólafssyni hvað varðar bændur og einmitt réttindi kvenna í bændastétt við skilnað. Ef þær fara frá búinu njóta þær einskis úr þessum sjóði. Þá kemur það bara í framhaldi af þeirri umræðu sem var í Alþingi í gær um jafnrétti kynjanna í landbúnaði og réttindi kvenna.

Ég held og vænti þess að hæstv. ráðherra skoði þessi mál með bændastéttinni, með forustumönnum bænda. Ég held að þeir hafi mikinn áhuga á að breyta þessu vegna þess að þetta nýtist þeim mjög illa. Ég held að þær tölur sem koma hér fram, hvað greitt er út úr sjóðnum, fara líka lækkandi ár frá ári. Þeir greiða inn 11 milljónir en eru að fá út úr honum 9 milljónir. Ég spyr: Er þessi sjóður ekki bara barn síns tíma og ætti ekki að leggja hann niður og menn tryggi sig á annan hátt?