131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:05]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur að ekki hafi orðið mikil fjölgun í opinberum störfum úti um land á undanförnum árum. Nýlegar tölur sem ég hef þar um sýna að í opinberri stjórnsýslu hefur t.d. fjölgað um 7% á árunum 1998–2003. Þar af hefur fjölgað um 2% á höfuðborgarsvæðinu en 12% utan höfuðborgarsvæðisins.

Í fræðslustarfsemi hefur á þessum árafjölda fjölgað um 31%, sem er mjög mikið. Á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað í fræðslustarfsemi um 34% en um 25% utan þess. Í heilbrigðis- og félagsmálum hefur fjölgað á þessum árum um 15% á landsmælikvarða. Þar af hefur fjölgað um 13% á höfuðborgarsvæðinu en hins vegar um 17% utan höfuðborgarsvæðisins. Tæplega 30% á vinnumarkaði eru í opinberri þjónustu, bæði á og utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég hef ekki átt þess kost að fara nákvæmlega yfir þá skýrslu sem hér er vitnað til. Mér sýnist þó augljóst að þar sé unnið út frá svokölluðu tryggingagjaldi en það vill svo til að allar opinberar stofnanir sem eru með starfsemi víða úti um land skila þessu tryggingagjaldi til skattstofunnar í Reykjavík og virðist sem skýrsluhöfundur gangi út frá því að viðkomandi starfsemi sé þar.

Á undanförnum árum hefur verið farið út í fjölmörg verkefni á þessu sviði, stofnanir hafa ýmist verið fluttar í heilu lagi eða að hluta. Ég minni á Landmælingar Íslands, Byggðastofnun og hluta Íbúðalánasjóðs. Ég minni á stofnanir á vegum samgönguráðuneytisins og núna síðast á vegum sjávarútvegsráðuneytisins þegar ákveðið var að flytja hluta af starfsemi Fiskistofu og Veiðieftirlitið út á land.

Hér hefur því margt verið gert. Skipuð var sérstök nefnd af forsætisráðherra sem hefur átt reglulega fundi með ráðherrum, farið yfir þessi mál í þeim tilgangi að fjölga verkefnum og störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Það sem einkum hefur verið lögð áhersla á í því sambandi er að styrkja þær stofnanir sem eru til staðar úti á landsbyggðinni, m.a. með því að færa til þeirra verkefni, t.d. frá öðrum stofnunum og ráðuneytum. Í því sambandi má nefna menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, rannsóknastofnanir, embætti sýslumanna og skattstofur. Mikil áhersla hefur verið lögð á að fjölga störfum sem krefjast háskólamenntunar og þar hefur athyglin sérstaklega beinst að einum byggðarkjarna í hverjum landsfjórðungi sem síðar með margfeldisáhrifum getur haft jákvæð áhrif á störf og búsetu í nálægum byggðarlögum. Í því sambandi ber einkum að hyggja að menntastofnunum og sjúkrahúsum. Það hefur verið farið út í eflingu menntastofnana víðs vegar um landið og aldrei hefur jafnmikið gerst og á undanförnum árum í þeim efnum.

Það er ekki þar með sagt að þessum verkefnum sé lokið og að nóg hafi verið að gert. Hér er um sífelld verkefni að ræða en við verðum líka að gæta þess þegar þessi mál eru dæmd að gífurlegar breytingar hafa orðið á þjóðfélaginu, á okkar þjóðfélagsgerð. Það má segja að byggðin hafi færst miklu meira saman á undanförnum árum en nokkru sinni fyrr. Aðrar kröfur eru gerðar til þjónustu, menntunar og annarra atriða sem skipta máli í sambandi við það hvar fólk velur sér búsetu.

Ég tel að þessi skýrsla gefi ekki alveg rétta mynd af ástandinu en það er sjálfsagt að fara betur yfir þau mál og ræða þau. Hér er beitt stærðfræðilegum aðferðum sé ég við lauslegan lestur á þessari skýrslu. (Forseti hringir.) Þessi mál eru til stöðugrar athugunar og umræðu og verða það áfram.