131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:17]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil taka undir ýmislegt í máli hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar í þessum málum og ber þar helst að nefna þá útþenslu og þann vöxt sem hefur einkennt ríkisbáknið á undanförnum árum. Í því tilliti má til að mynda benda á yfirstjórn landbúnaðarins á Íslandi. Ef ég man rétt erum við með 12 stofnanir um íslenskan landbúnað, 55–60 nefndir og svo má áfram telja. Í raun má segja að yfirstjórn landbúnaðar á Íslandi endurspegli það atvinnuástand sem einkenndi íslenska þjóð um miðja síðustu öld. Áfram er hægt að telja og ég spái því að á næstu árum, hvort sem verður í stjórnartíð núverandi stjórnarflokka — þó svo að ég efist um það — muni ýmislegt breytast er varðar ríkisbáknið í heild sinni. Má þar nefna Íbúðalánasjóð, ríkisfjölmiðlana, heilbrigðiskerfið og svo má lengi telja.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra kom því að í máli sínu að hann óttaðist og hugnaðist ekki sú þróun sem orðið hefur á vexti hins opinbera á umliðnum árum. Tek ég undir orð hans. Í því ljósi vil ég benda á, frú forseti, nýlega ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra um að bæta við starfsstöð Fiskistofu í Vestmannaeyjum. Það er kannski góðra gjalda vert en að sama skapi samhliða slíkum breytingum hefði maður haldið að í þessum eftirlitsiðnaði okkar mundi þá fækka störfum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum mun samt ekki draga úr starfsemi Fiskistofu í Reykjavík þrátt fyrir þessa viðbót ráðherra í Vestmannaeyjum. (Gripið fram í: Hvaða bull …?) Þetta er samkvæmt þeim fregnum sem ég hef frá liðsmanni hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Í annan stað, frú forseti, vil ég benda á þann möguleika að í ljósi (Forseti hringir.) verkefnabreytinga milli ríkis og sveitarfélaga má búast við því að misræmi í opinberri þjónustu muni breytast til betri vegar á næstu missirum.