131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:26]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra vitnaði í einhverjar tölur sem ég veit ekki hvaðan koma. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti greint okkur frá því vegna þess að þessa umræðu um byggðamál skortir fagmennsku og að það séu einhverjar rannsóknir á bak við hlutina.

Að vísu olli hæstv. forsætisráðherra mér talsverðum vonbrigðum með að lesa þessa skýrslu Vífils Karlssonar bara lauslega. Ég tel að skýrslan sé þess verð að fara gaumgæfilega í gegnum hana. Auðvitað geta verið einhverjir hnökrar á henni, ekki ætla ég að þvertaka fyrir það. Hingað kom í fyrrahaust skýrsla um framvindu byggðamála frá hæstv. byggðamálaráðherra, hæstv. frú Valgerði Sverrisdóttur, og það er ein ömurlegasta skýrsla sem ég hef lesið. Ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að fara í gæðaeftirlit með byggðaskýrslum ætti hann einmitt að byrja hjá sinni eigin ríkisstjórn. Það er alveg svakalegt að lesa skýrslur um byggðamál þar sem ekki koma fram neinar mælistærðir, ekkert um íbúaþróun og ekkert um fjölgun eða fækkun starfa. Þetta er borið hér á borð og menn eiga að fjalla um það. Þess á milli gefur hæstv. byggðamálaráðherra Valgerður Sverrisdóttir út svona glansbæklinga sem ekkert er á bak við, er eingöngu upptalning héðan og þaðan á einhverjum verkefnum.

Það er orðið löngu tímabært að ríkisstjórnin noti síðustu tvö ár sín til að fara í raunverulega vinnu í byggðamálum og reyni að bæta fyrir misgjörðir sínar. Þetta er, eins og kom fram hér hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, svakalegt ástand og eitt af þeim verkefnum sem menn ættu að sinna af kostgæfni en ekki renna rétt lauslega yfir, frú forseti.