131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:28]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Sigurjón Þórðarson ræða þessi mál af mikilli léttúð. (MÞH: Nei.) Mér finnst ástæða til að fara yfir þær gífurlegu framfarir sem hafa orðið í þessu landi á undanförnum árum og áratugum sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var að rifja hér upp á allri sinni ævi. (Gripið fram í.) Það er ekki að ástæðulausu hvað hv. þingmaður er sældarleg og lítur vel út. Hún hefur lifað hér afar góðu lífi undir styrkri stjórn þeirra stjórnmálaflokka sem hér hafa farið með völd. (Gripið fram í.) Mér finnst mikilvægt að hv. þingmaður bendi á það, því að það er rétt. (Gripið fram í: Hún býr …)

Hér hafa að sjálfsögðu orðið gífurlegar framfarir. Við skulum minnast þess að Ísland er í útjaðri Evrópu og við erum í samkeppni við öll önnur lönd í Evrópu og víðar í heiminum. Aðalatriðið er það að við stöndum okkur í þeirri samkeppni. Það höfum við vissulega gert og við erum í fremstu röð meðal þessara þjóða.

Auðvitað hafa orðið hér miklar breytingar, breytingar á búsetu og líferni, og þær hafa haft mikil áhrif á þjóðfélagið. Hugsið ykkur allar samgöngubæturnar sem hafa orðið á undanförnum árum og þær miklu breytingar, a.m.k. frá því að ég man eftir mér og ég man nú aðeins lengur en hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, (Gripið fram í.) heldur lengur. Þegar ég man fyrst eftir mér á suðausturhorni landsins komust menn ekki einu sinni austur á land, hvað þá til Reykjavíkur, þannig að mér finnst stundum að menn mættu muna betur þær gífurlegu breytingar og framfarir sem hafa orðið í þessu landi í stað þess að staglast stöðugt á því, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, að hér hafi ekkert gerst. Hann hefur verið mjög utan gátta greinilega, hv. þingmaður.