131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

660. mál
[13:31]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki sjálfgefið að öll börn fæðist heilbrigð eða þroskist á eðlilegan hátt. Þeir foreldrar sem eiga heilbrigð börn ganga yfirleitt að því sem sjálfgefnu að svo sé og velta öðru ekki fyrir sér fyrr en eitthvað kemur fram sem vekur grun hjá þeim eða öðrum sem umgangast barnið. Oftast eru það foreldrarnir sem finna fyrst að eitthvað er að hjá barninu, eitthvað sem erfitt getur verið að lýsa eða staðfesta. Áhyggjur foreldra ber því að taka alvarlega og ganga úr skugga um hvort þær séu ástæðulausar.

Vakni grunur um þroskafrávik eða fötlun hjá börnum, hvort heldur hjá foreldri, heilbrigðisstarfsfólki, leik- eða grunnskólakennurum, verður hið fyrsta að fara fram frumgreining eða formleg athugun sérfræðinga á þroska eða færni barnsins til að staðfesta eða afsanna að um alvarlegt frávik sé að ræða.

Frumgreining getur farið fram á ýmsum vettvangi eftir eðli vandans en algengast er að frumgreining fari fram hjá barnadeildum sjúkrahúsa, sérfræðiþjónustu grunnskóla, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu barna, sérfræðingum svæðisskrifstofa, greiningarteymum heilbrigðisstofnana, Sjónstöð Íslands, Heyrnar- og talmeinastöð og ýmsum öðrum sérfræðingum.

Frumgreiningu er í flestum tilfellum sinnt hratt og vel en frumgreiningin skilur frá þau börn sem þurfa á frekari rannsóknum og greiningu að halda frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. En það er á þessum tímapunkti, hæstv. forseti, sem þrautaganga margra foreldra byrjar og ótti og áhyggjur fjölskyldna hefst. Það hlýtur að vera mikið álag að eiga barn sem vitað er að þroskast ekki á allan hátt eðlilega en fá ekki fullnaðargreiningu og viðhlítandi úrræði fyrir barnið og stuðla þar með að sem mestum þroska og skilyrði til eðlilegs lífs. Það er staðreynd að því fyrr sem greining verður og meðferð hefst, og þá sérstaklega undir 7 ára aldri, þeim mun líklegra er að börnin nái hæfilegum þroska.

Nú er ljóst að það er löng bið eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og því hef ég lagt eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. félagsmálaráðherra:

1. Hve löng bið er eftir greiningu vegna alvarlegra þroskafrávika, sundurliðað eftir aldri?

2. Hefur tilvísunum til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins fjölgað á síðustu fimm árum? Ef svo er, hverjar eru taldar helstu ástæðurnar?

3. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við fjölgun frumgreininga á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og tilvísana þangað?

4. Hve langan telur ráðherra ásættanlegan biðtíma?

5. Hvenær telur ráðherra að markmiðum um ásættanlegan biðtíma verði náð?