131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

660. mál
[13:39]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað fullkomlega óásættanlegt að biðtími eftir þjónustu Greiningarstöðvarinnar geti verið allt að 2–3 ár eins og hæstv. ráðherra lýsti hér. Það er alveg ljóst að biðtími hefur aukist verulega. Börnum sem bíða eftir þjónustu stöðvarinnar hefur líka fjölgað frá því að sú áætlun var gerð á árinu 2002 eða 2003 sem ráðherra nefndi. Það kallar á fleira starfsfólk. Það er bæði ómanneskjulegt og óskynsamlegt að hafa Greiningarstöðina í svona uppnámi og ráðherra verður að vera það ljóst að ef börn t.d. á grunnskólaaldri fá ekki greiningu fá þau ekki sérkennslu. Greining Greiningarstöðvarinnar er forsenda ýmissar þjónustu við fötluð börn, auk þess sem t.d. umönnunarbætur geta oltið á því að börnin fái greiningu. Þess vegna hvet ég ráðherrann til þess að bæta stöðu Greiningarstöðvarinnar. Það hefur verið erfitt að fá starfsfólk þangað, m.a. vegna þess að launin hafa verið þar verulega lægri en annars staðar (Forseti hringir.) þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til úrbóta í þessu máli.