131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

660. mál
[13:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar aðeins að ítreka þá hvatningu sem hæstv. ráðherra hefur fengið til að ráða bót á stöðunni hjá Greiningarstöð ríkisins. Þetta er að verða sagan endalausa, að börn skuli þurfa að bíða í allt að þrjú ár eftir greiningu er algerlega óviðunandi. Eins og komið hefur fram hér fá þau ekki þjónustu í skólunum fyrr en búið er að greina þau. Það getur komið í veg fyrir að forráðamenn fái umönnunargreiðslur o.s.frv. þannig að það er krafa að bót verði ráðin á því að bið eftir greiningu verði skemmri þannig að þau börn sem eru komin í skóla fái þjónustu. Það er auðvitað afleitt þegar börn eru í skóla kannski 2–3 ár án þess að fá nokkra sérþjónustu vegna þess að þau eru enn að bíða eftir greiningu. Það er gjörsamlega óviðunandi.