131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

660. mál
[13:45]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er brýn og tek undir það sem fram hefur komið í máli hv. þingmanna að það skiptir auðvitað miklu máli að vel takist til ekki síður við frumgreiningu og samræmingu þeirra aðgerða sem á sér stað á því stigi máls heldur en varðandi það starf sem fer fram hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni.

Eins og fram kom í máli mínu áðan, hæstv. forseti, hefur starfsfólki hjá stofnuninni verið fjölgað í samræmi við áætlanir á síðasta ári og þessu ári en það er alveg ljóst að með tilliti til frekara álags og aukinna tilvísana á síðasta ári og þessu ári að því er virðist er þörf frekari fjölgunar starfsfólks. Áform mín standa til þess, eins og fram kom í máli mínu áðan, og við gerum ráð fyrir að fjölga stöðugildum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni um níu á næstu þremur árum. Með því móti ætti okkur að takast að vinna á þessum langa biðlista komi ekki til frekari aukningar frá því sem nú er. Ég tek undir með hv. þingmönnum að þessi langi biðlisti er óásættanlegur og felur að sjálfsögðu í sér álag á fjölskyldur og foreldra þessara barna og við hljótum öll að vera sammála um að taka höndum saman um að taka á þessu máli.