131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Fræðsla um samkynhneigð.

500. mál
[13:47]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til menntamálaráðherra um fræðslu um samkynhneigð í grunn- og framhaldsskólum. Ég legg þessa fyrirspurn fram í félagi við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson. en ástæðan fyrir að við leggjum hana fram er sú að síðasta sumar eða réttara sagt í ágúst síðastliðnum kom fram viðamikil og góð skýrsla um réttarstöðu samkynhneigðra sem unnin var af nefnd sem forsætisráðherra skipaði til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks. Eins og áður sagði er skýrslan afar umfangsmikil og snertir mörg ráðuneyti en í henni eru ákveðnir þættir og ákveðnar tillögur frá nefndinni sem lúta að fræðslumálum og eru þá á hendi menntamálaráðuneytisins. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvernig hyggst ráðherra bregðast við tillögum nefndar um réttarstöðu samkynhneigðra sem lúta að fræðslu í grunn- og framhaldsskólum um málefni samkynhneigðra, sbr. kafla 10.7 í skýrslu nefndarinnar frá ágúst sl.?“

Í þeim kafla, 10.7, er talað sérstaklega um að aðgerðir til að jafna stöðu samkynhneigðra í samfélaginu snúist að mestu leyti um að eyða fordómum og það sé helst gert með mikilli fræðslu, umræðum og upplýsingagjöf um samkynhneigð. Beinar tillögur nefndarinnar eru afar athyglisverðar. Til dæmis er bent á að í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla frá 1999 hafi ekki verið tekið mið af tillögum nefndar um málefni samkynhneigðra frá 1994, um að kveða skýrt á um fræðslu um kynhneigð í námskrám. Nefndin leggur til að svo verði gert við endurskoðun aðalnámskrár. Einnig er lagt til að samið verði námsefni fyrir öll skólastig þar sem fjallað verði á fordæmalausan hátt um samkynhneigð. Þá telur nefndin æskilegt að þessi fræðsla sé tilgreind í námslýsingum ýmissa fagstétta, eins og kennara, hjúkrunarfræðinga, lækna, lögfræðinga o.s.frv. Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvernig hún hyggist bregðast við þeim góðu tillögum sem lúta að hennar ráðuneyti og er að finna í áðurnefndri skýrslu.