131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Fræðsla um samkynhneigð.

500. mál
[13:56]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra ágæt svör og er jákvætt að heyra að þessi skýrsla og sá kafli sem snýr að menntamálunum og námskránni sé hafður til hliðsjónar við breytingu á námskrá.

Í núverandi námskrá, í kaflanum Lokamarkmið í lífsleikni í grunnskóla stendur, með leyfi forseta:

„Nemandi rækti með sér samkennd, samhygð og virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra til að geta átt auðug og gefandi samskipti við einstaklinga óháð kyni, kynferði, þjóðerni, trú, líkamlegu og andlegu atgervi.“

Þarna er heilmargt tiltekið en einmitt þarna ættum við að sjá kynhneigð vera inni. Við eigum ekki, eins og hv. þm. Lára Stefánsdóttir sagði, að reyna að fela hana undir rós, undir annars konar orðalagi, heldur koma henni beint að.

Í því sambandi vil ég að lokum lesa upp ákveðinn hluta úr texta skýrslunnar og fá að gera þau orð að mínum vegna þess að ég held að þau séu lykilatriði í þessari umræðu og hvað þetta mál varðar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þögn um málefni í námskrám skapar óöryggi í skólastarfi um það hvaða stefnu beri að taka þó að eindreginn vilji skólastjórnenda og kennara til breytinga sé fyrir hendi. Þessi þögn bitnar ekki aðeins á öllum nemendum án tillits til kynhneigðar þeirra heldur einnig á samkynhneigðum kennurum svo og samkynhneigðum foreldrum og börnum þeirra.“

Virðulegi forseti. Svo segir í skýrslunni. Ég vil eins og áður segir gera þessi orð að mínum og tel þau lykilatriði í þessum efnum þar sem ekki gengur neitt annað en fræðsla og aftur fræðsla og á því ber hæstv. menntamálaráðherra ábyrgð.