131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Kostun dagskrárliða í útvarpi og sjónvarpi.

515. mál
[14:00]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Kostunarmál í fjölmiðlum hafa oftsinnis verið til almennrar umræðu og þau hafa verið rædd á Alþingi, bæði í tengslum við setningu laga um útvarpsmálefni en einnig hefur menntamálaráðherra áður þurft að svara fyrir um kostunarreglur í fyrirspurnatímum.

Varðandi kostun dagskrárliða hafa gjarnan heyrst hvassar gagnrýnisraddir, eins og t.d. þegar ákveðið var að heimila kostun veðurfrétta í sjónvarpinu. Slíkt var talið stríða gegn lögum þar sem um fréttatengt efni var að ræða en samkvæmt lögunum er bannað að kosta slíkt efni. Ekki man ég gjörla hvað það var sem olli því að kostun veðurfrétta var heimiluð en það hlýtur að hafa verið byggt á skilgreiningu einhverra snillinga sem komust að þeirri niðurstöðu að veðurfréttir væru ekki fréttatengt efni.

Um auglýsingar og kostun er fjallað í útvarpslögum og gilda þau lög um alla ljósvakamiðlana og í lögum um Ríkisútvarpið er þess getið að útvarpsstjóri eigi að setja sérstakar reglur um auglýsingar í þeim miðli. Þann 3. nóvember 1999 svaraði þáverandi hæstv. menntamálaráðherra Björn Bjarnason fyrirspurn um kostunarmál frá hv. fyrrverandi þingmanni Svanfríði Jónasdóttur og 10. nóvember það sama ár svaraði hann mér skriflega spurningum af sama toga.

Meðal þess sem fram kom í svörum hæstv. ráðherra þá var að efni kostaðs dagskrárliðar mætti ekki fela í sér beina hvatningu til kaupa á vörum eða þjónustu og einnig að kostun væri frábrugðin auglýsingum á þá lund að kostunaraðili fengi einungis að birta eitt skilti eða eitt ósamsett óklippt myndskeið með nafni kostunaraðila. Önnur heimil leið væri að birta vörumerki frá kostunaraðila í upphafi og/eða við lok útsendingar í 3–5 sekúndur. Grunnprinsippið í kostun væri sem sagt það að birta nafn viðkomandi kostunaraðila en ekki að auglýsa vöru hans eða þjónustu. Það sama var sagt gilda í sjónvarpi og útvarpi, allsendis óheimilt væri að blanda saman kostun og auglýsingum og óheimilt væri að nota skilti, myndskeið eða hljóðrásir úr auglýsingum þegar kostunaraðila væri getið.

Hæstv. forseti. Nú hljóta allir sem hlýða á mál mitt að sjá að þessar reglur hljóta að hafa breyst í grundvallaratriðum þar sem kostunaraðilar sjónvarpsþátta fá núna að birta myndskeið sem ekki verður af neinni sannfæringu sagt að séu annað en auglýsingar á undan eða eftir hinum kostuðu dagskrárliðum. Og kostunaraðilar útvarpsþátta fá nánast að vera á hnjánum á plötusnúðunum heilu og hálfu þættina við að auglýsa sig og sitt.

Hæstv. forseti. Síðan þessi svör voru gefin er liðið á sjötta ár og í millitíðinni hefur lögum verið breytt. Ný útvarpslög tóku gildi 26. maí árið 2000 svo að vel kann að vera að kostunarreglur hafi breyst eftir það. Í öllu falli verður forvitnilegt að heyra svör hæstv. menntamálaráðherra við þeim spurningum sem ég hef lagt fram á sérstöku þingskjali til hennar varðandi þessi mál eins og ég hef áður rakið um eldri reglur og í ljósi þess hvernig kostunaraðilar koma skilaboðum sínum á framfæri við útvarpshlustendur og sjónvarpsáhorfendur í dag.