131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Kostun dagskrárliða í útvarpi og sjónvarpi.

515. mál
[14:07]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra þessi svör. Það er auðvitað alveg augljóst eins og kemur fram í máli mínu og hv. þm. Marðar Árnasonar að þessar reglur sem eru í gildi hafa verið þverbrotnar og eftir því sem lengra verður haldið inn á þá braut, því lengra færa auglýsendur eða kostunaraðilar sig upp á skaftið. Það er vissulega fagnaðarefni að hæstv. menntamálaráðherra skuli nú tilkynna okkur það hér að útvarpsréttarnefnd skuli vera að fara að framkvæma könnun á þessu máli. Ég geri ekki ráð fyrir að útvarpsréttarnefnd þurfi að kanna þetta verulega djúpt því það er augljóst mál að hér er verið að þverbrjóta gildandi reglur. Það sýnir sig líka á tölunum sem hæstv. menntamálaráðherra gefur okkur upp varðandi hlut kostunar í heildarauglýsingatekjum Ríkisútvarpsins. Sá hlutur hefur aukist talsvert og ég gæti vel ímyndað mér að það stæði í einhverju samhengi við það að kostunin er að verða mun fyrirferðarmeiri sem auglýsing en áður var og fyrirferðarmeiri en reglurnar gera ráð fyrir. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að framkvæmd þessara reglna verði skoðuð, ég fagna því að það skuli vera í bígerð og vona að það taki skamman tíma að komast að niðurstöðu.

Eins og hæstv. ráðherra gat um í máli sínu eru ekki uppi hjá henni áform um að endurskoða þessar reglur að sinni, enda skulum við gera ráð fyrir að málefni fjölmiðla verði til umfjöllunar í þinginu og í þjóðfélaginu þar sem fram undan er mikil umræða, ef að líkum lætur, um þessi málefni. Þá treysti ég því og veit raunar að málefni auglýsenda koma líka upp á borðið og það hvernig reglum um kostun er framfylgt í fjölmiðlunum okkar.