131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Þekkingarsetur á Egilsstöðum.

687. mál
[14:10]

Fyrirspyrjandi (Katrín Ásgrímsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Uppbygging þekkingarseturs á Austurlandi hefur verið í undirbúningi í nokkur ár, þ.e. frá árinu 2001. Í upphafi þeirrar umræðu var þegar ljóst að aðstöðu vantaði á Egilsstöðum fyrir minni stofnanir og fyrir aðila sem störfuðu að rannsóknum þar. Það er því ljóst að sterkur grundvöllur var fyrir öflugu þekkingarsetri sem hefði það hlutverk að samþætta og efla rannsóknastarf á starfssvæðinu og starf stofnana.

Eins og mönnum er kunnugt um er mikill uppgangur á Austurlandi um þessar mundir. Sá uppgangur er á ýmsum sviðum og áhugi margvíslegra fyrirtækja og stofnana á frekari starfsemi þar. Einnig eru í gangi margar áhugaverðar rannsóknir sem m.a. koma til vegna sérstöðu svæðisins. Sem dæmi um það má nefna rannsóknir sem tengjast þróun á því nýja lífríki sem er að verða til í þeim lerkiskógum sem nú vaxa upp á Héraði og fleira mætti nefna í því sambandi. Það er þó ljóst að þau öflugu fyrirtæki sem eru og verða fyrir austan, svo sem í sjávarútvegi, fiskeldi og álbræðslu, vilja tengjast slíku þekkingarsetri fyrir utan margar stofnanir ríkisins sem ýmist hafa þegar aðsetur á Egilsstöðum eða eru að undirbúa slíkt. Margt hefur orðið til þess að tefja vinnslu málsins. Má þar nefna húsnæðismál og mál sem tengjast flutningi ríkisstofnana undir sama þak og þekkingarsetrið er.

Fyrir nokkru voru sendar til menntamálaráðuneytisins tillögur þar sem gert er ráð fyrir að skipað verði þekkingarráð Austurlands. Ráðið verði skipað fulltrúum stofnana og atvinnulífs og sjái um samþættingu milli aðila, verði eins konar fag- og hagsmunafélag þekkingariðnaðarins og geti t.d. tekið að sér úthlutun svæðisbundinna rannsóknarstyrkja. Þetta skipulag er t.d. áþekkt því sem nú er varðandi menningarmál í fjórðungnum og menntamálaráðherra hefur nýlega undirritað samning um. Undir þessu þekkingarráði er síðan gert ráð fyrir að rekið verði þekkingarsetur á Egilsstöðum, í Neskaupstað og á Hornafirði en á öllum þessum stöðum er í raun kominn vísir að slíku setri. Það er í Nýheimum á Höfn, á Búlandi í Neskaupstað og í Háskólasetrinu á Egilsstöðum. Á þessum þremur stöðum er fyrir hendi kennsluaðstaða Fræðslunets Austurlands og Háskólaseturs Austurlands auk kjarnastofnana sem eru farnar að stunda rannsóknir tengdar starfsemi sinni.

Rétt er að nefna einnig í þessu sambandi að nokkrar stofnanir eru nú þegar í húsnæðishraki á Egilsstöðum og bíða niðurstöðu þessa máls, svo sem Umhverfisstofnun og Fornleifavernd ríkisins. Það er einnig ljóst að sú ákvörðun sem kynnt var í gær um flutning starfa frá Fiskistofu til Hafnar í Hornafirði styrkir þetta mál.

Einnig má nefna að samningur um Háskólasetur á Egilsstöðum sem var aðeins til bráðabirgða rennur út síðar á árinu og tengist sá samningur máli þekkingarsetursins mjög sterkt. Tillögur um þekkingarsetrið hafa legið um hríð í menntamálaráðuneytinu án þess að ráðuneytið hafi tekið til þess afstöðu. Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Hefur ráðuneytið tekið afstöðu til þeirra tillagna sem lagðar hafa verið fram um þekkingarsetur á Austurlandi?

2. Verður skipaður starfshópur til að vinna málið áfram og hefur ráðuneytið í því sambandi sett sér einhvern tímaramma?