131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Þekkingarsetur á Egilsstöðum.

687. mál
[14:16]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég fagna sérstaklega ákvörðun ráðherra um að stofna nú þegar starfshóp til að ljúka stofnun þekkingarseturs á Austurlandi. Eins og hv. fyrirspyrjandi vek ég einnig athygli á áformum um stofnun þekkingarráðs Austurlands til að samhæfa þekkingarstarfsemi þannig að það verði eins konar fag- og hagsmunafélag þekkingariðnaðarins á Austurlandi. Þá er aðkoma atvinnulífsins að þekkingar- og rannsóknastarfsemi tryggð og það leiðir til mikillar samhæfingar.

Það er líka full ástæða til að vekja athygli á ályktun vísinda- og tækniráðs frá 17. desember 2004 en þar styður ráðið hugmyndir um þekkingarsetur og færir mjög góð rök fyrir þeim stuðningi sínum.