131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Veiðarfæri í sjó.

613. mál
[14:24]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Okkur hefur gengið illa að byggja upp fiskstofnana í sjónum í kringum landið frá því að við tókum upp núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Miðað við þær væntingar sem menn gerðu til kerfisins má segja að þær hafi ekki gengið eftir hvað varðar uppbyggingu nytjastofna sjávar.

Við hljótum að velta fyrir okkur af hverju ekki gangi betur en raun ber vitni að byggja upp stofnana og við hljótum að þurfa að vera opin fyrir nýjum aðferðum til að stýra sókn í einstaka fiskstofna. Við vitum öll að sóknarmynstrið hefur breyst talsvert mikið frá því sem það var á árum áður og við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur hvort þetta breytta sóknarmynstur og breyttar áherslur við veiðar geti ekki haft talsverð áhrif á hvernig okkur gengur að byggja upp fiskstofnana.

Sóknin með mismunandi veiðarfærum hefur breyst frá fyrri tímum og einnig má segja að veiðarfæri hafi þróast mikið á undanförnum árum og veiðigeta þeirra breyst frá því sem áður var. Afli skipa sem stunda togveiðar hefur aukist gríðarlega og sérstaklega veiðigeta þeirra veiðarfæra sem þessi skip nota. Þau draga nú á eftir sér mun stærri og þyngri veiðarfæri en áður tíðkuðust. Viðkvæm botnsvæði hljóta því að vera í talsverðri hættu þegar farið er yfir þau með svo stórvirkum veiðarfærum. Það má kannski jafna þessu við það þegar stórvirkar vinnuvélar fara yfir hraun. Svæði sem áður var torvelt að fara yfir með botntrolli hafa nú slést það mikið að það stendur ekkert fyrir aukinni umferð togara með troll sín yfir þau.

Það hljóta allir að viðurkenna að það hlýtur að vera talsvert mikill munur á áhrifum mismunandi veiðarfæra á sitt nánasta lífríki. Kyrrstæð krókaveiðarfæri og gildrur hljóta að hafa önnur og minni áhrif á lífríkið í kringum sig en veiðarfæri sem dregin eru eftir botni. Í dag skiptir engu máli í hvaða veiðarfæri fiskur er tekinn, kíló er kíló og allur dauður fiskur lagður að jöfnu. Ef skaðsemi veiðarfæra er misjöfn og áhrif þeirra á sitt næsta lífríki einnig eigum við að spyrja í fullri alvöru hvort ekki sé rétt að taka upp veiðarfærastýringu í meira mæli en gert er í því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum.

Grundvöllur allra ákvarðana varðandi nýtingu á auðlindum hafsins hlýtur að vera besta þekking sem við getum aflað okkur á hverjum tíma. Við eigum að grunda ákvarðanir okkar á slíkri þekkingu, ekki á tilfinningum eða óskhyggju heldur bestu ráðgjöf sérfræðinga sem fyrir hendi er á hverjum tíma. Því er nauðsynlegt að stunda fjölþættar rannsóknir, og veiðarfærarannsóknir hljóta að koma þar inn í. Því spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra:

1. Hefur Hafrannsóknastofnunin staðið fyrir rannsóknum á umhverfisáhrifum mismunandi veiðarfæra á lífríki sjávar?

2. Telur ráðherra rétt að auka vægi veiðarfærastýringar við stjórn fiskveiða?