131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Veiðarfæri í sjó.

613. mál
[14:32]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að mér fundust svör hæstv. ráðherra betri en ég átti von á. Hann gaf yfirlýsingu á fundi Landssambands smábátaeigenda í haust þar sem hann sagði skýrt og greinilega að ekki stæði til að mismuna veiðarfærum hvað varðaði úthlutun á kvótum. Mér finnst sem hæstv. ráðherra sé farinn að endurskoða það að einhverju leyti með þeim orðum sínum að hann telji koma til greina að skoða þessa hluti upp á nýtt. Ég fagna því og tel fulla ástæðu til þess.

Ég tel að afar ómarkviss stýring sé á ferðinni hvað varðar úthlutanirnar sjálfar. Auðvitað er veiðum stýrt með svæðalokunum og öðru slíku en það er full ástæða til að skoða hvort í úthlutunum sjálfum eigi ekki að koma til móts við aðila eftir því hvernig þeir ganga um lífríkið og hvaða áhrif veiðarnar hafa á viðkomandi stofna.