131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Veiðarfæri í sjó.

613. mál
[14:33]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Veiðarfærastýringar við stjórn fiskveiða skipta að sjálfsögðu verulegu máli og eru ein af þeim breytum sem við getum beitt til að stýra sókn okkar í fiskstofnana, til að mynda reyna að hafa áhrif á hvaða stærðir fisks við veiðum á hverjum tíma. Þetta snertir að sjálfsögðu kjörhæfni veiðarfæra, til að mynda netveiðarfæra en einnig krókveiðarfæra.

Varðandi veiðarfærastýringu með tilliti til áhrifa veiðarfæra á lífríkið almennt — ég er sérstaklega að hugsa um lífríkið á botninum, botndýralíf og áhrif dreginna veiðarfæra á það — þá tel ég löngu tímabært að tekið verði til skoðunar að veiðar með dregnum veiðarfærum, sérstaklega botnvörpu, verði bannaðar á ákveðnum stöðum þar sem við vitum að lífríki á botni er viðkvæmt. En þar skortir að sjálfsögðu rannsóknir og þar hefðum við átt að gera betur en við höfum gert.