131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Veiðarfæri í sjó.

613. mál
[14:35]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við veiðum samkvæmt kvótastýrðu fiskveiðikerfi þar sem kvótarnir ganga kaupum og sölum og eru jafnframt leigðir. Það atferli hefur áhrif á stýringu fiskveiða og nýtingu veiðislóðarinnar. Það kann vel að vera að sé aðgangur manna að stærri fiski heftur þá gæti það orðið til að kerfið leiddi af sér meira brottkast. Ég held að menn standi jafnvel frammi fyrir þessu í dag sem hluta af þeirri staðreynd að möskvar í þorskanetum hafa verið minnkaðir. Ég vil spyrja ráðherrann hvort það hafi verið skoðað eða fylgst með því.

Það er líka einkennilegt að önnur veiðarfæri geta sótt inn á sömu mið og var verið að vernda varðandi stórfiskinn. Síðan vil ég vekja athygli á því að svæðalokanir þarf að skoða mun betur en gert hefur verið á undanförnum árum.