131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Veiðarfæri í sjó.

613. mál
[14:36]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við spurningunum og eins hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég verð að segja hvað fyrri spurningu mína varðar, um rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar, að ég er ánægður með þau svör hæstv. ráðherra að stundaðar hafi verið talsverðar rannsóknir hjá Hafró á áhrifum veiðarfæra. Eins fagna ég því að menn velti fyrir sér að gefa þessum rannsóknum ákveðinn forgang og veiðarfærasérfræðingar verði kallaðir til í auknum mæli til að fara betur í rannsóknirnar.

Hæstv. ráðherra ræddi rannsóknir á botnvörpu, rækjutrolli, hörpudisksveiðum með plógum, handfæri og línu, en mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort fram hafi farið einhver rannsókn á áhrifum flottrollsveiða á uppsjávarfiski, þar sem stór og mikil troll eru dregin í mjög langan tíma um mikið hafsvæði og gleypa allt sem á því svæði er, t.d. loðnutroll með smáum möskva. Ég heyrði um daginn þær fréttir að jafnvel kæmi lax í þessi veiðarfæri. Það er umhugsunarefni og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort á því sviði séu einhverjar rannsóknir í gangi eða fyrirhugaðar.

Hvað varðar aukið vægi veiðarfærastýringar við stjórn á fiskveiðum fannst mér einnig sem hæstv. ráðherra tæki betur í það en ég átti von á, að veiðarfærastýring gæti komið til greina í auknum mæli frá því sem verið hefur. Hæstv. ráðherra talaði um að menn þyrftu að skoða málið út frá hagkvæmni og út frá gæðum afla. Ég held að við þurfum ekki síður að skoða veiðarfærastýringu með það í huga hvernig okkur gengur að byggja upp fiskstofnana. Þótt hæstv. ráðherra vilji ekki segja að illa hafi gengið að byggja þá upp þá vil ég taka þannig til orða. Eins og staðan er þá hefur gengið illa að byggja upp fiskstofnana.