131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Veiðarfæri í sjó.

613. mál
[14:38]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að hv. þm. Jóhanni Ársælssyni tókst í örstuttri athugasemd að mistúlka bæði orð mín frá fundi Landssambands smábátaeigenda og orð mín í ræðunni á undan.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson spurði um athuganir vegna breytinga á möskvastærð. Þær athuganir hafa ekki farið fram en þær breytingar hafa gerst í ákveðnum skrefum. Núna eru þær allar komnar til framkvæmda og með vorinu verður farið að athuga hvort sýnileg áhrif séu af þessum breytingum, t.d. þegar yfirstandandi vertíð er lokið. Þá mun samhengið við brottkast einnig skoðað en það skoðum við reglulega og frá ári til árs hjá Hafrannsóknastofnun.

Svæðalokanir og áhrif þeirra hafa nýlega verið skoðaðar í tengslum við nefndina um líffræðilega fiskveiðistjórn og álitsgerð liggur fyrir um það.

Varðandi spurningar hv. þm. Jóns Gunnarssonar um flottroll þá hafa verið gerðar rannsóknir á flottrolli. Hins vegar hefur reynst erfitt að gera þær rannsóknir. Farið hefur fram vinna til að þróa þær betur en samt sem áður hafa niðurstöður úr athugunum úr afla að undanförnu leitt til þess að rétt þykir að gera breytingar á þeim um það eru fyrirliggjandi þingmál, eins og hv. þingmenn vita. Hins vegar finnst mér ekki ótrúlegt að lax komi í þetta veiðarfæri, miðað við hvar laxinn heldur sig á hafsvæðinu stóran hluta ævinnar.

Varðandi veiðarfærastýringu þá erum við með veiðarfærastýringu. Hún skiptir verulegu máli og það kemur mér á óvart að það skuli koma hv. þingmönnum á óvart að ég taki jákvætt í það miðað við þá forsögn sem nefndin um líffræðilega fiskveiðistjórn fékk þegar erindisbréf hennar var sent á sínum tíma. Þar er talað jákvætt um hvernig þetta megi gerast, frú forseti. En það þýðir ekki endilega að mismuna eigi í kvótum.