131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:41]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini spurningu minni til hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi stöðu og framtíð sláturhússins á Kirkjubæjarklaustri. Slátrun hefur verið rekin á Kirkjubæjarklaustri um langt skeið. Vinnustaðurinn hefur verið einn sá stærsti í byggðarlaginu og skipt afar miklu máli, bæði í atvinnulegu tilliti og einnig hvað varðar þjónustu við bændur og íbúa svæðisins.

Samkvæmt upplýsingum sem heimamenn Skaftárhrepps gáfu okkur í landbúnaðarnefnd í byrjun febrúar stendur til að sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri verði lokað, jafnvel frá og með næsta hausti. Það er Sláturfélag Suðurlands sem á og rekur húsið en sláturfélagið er í sjálfu sér í eign bænda á Suðurlandi.

Mikið hefur verið gert af því á undanförnum árum að úrelda sláturhús og loka atvinnustöðum í byggðarlögum í krafti hagræðingar. Ríkisvaldið hefur gengið þar inn með fjármagn, m.a. til að úrelda burt atvinnutækifærin. Sumpart hefur það verið til góðs en í öðrum tilvikum hefur verið dregið í efa hvort það hafi verið til góðs. Það er a.m.k. ljóst að sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri hefur skipt gríðarlega miklu máli á svæðinu. Það kom fram á fundinum með fulltrúum Skaftárhrepps að Sláturfélag Suðurlands hefði lítið samband haft við heimamenn varðandi þá ákvörðun en Sláturfélagið mun hafa sótt um úreldingarfé til að loka húsinu.

Í skýrslu sem hefur verið unnin að beiðni Skaftárhrepps, um áhrif sláturhússins á Kirkjubæjarklaustri á atvinnulíf og búsetu í Skaftárhreppi, kom fram að um 30 manns hafa haft þar atvinnu auk þjónustuaðila sem því tengjast. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra:

1. Hve mörgu fé hefur árlega verið slátrað í sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri sl. fimm ár og hve mörg ársverk hafa tengst þeirri starfsemi?

2. Hversu mikið er ráðgert að greiða Sláturfélagi Suðurlands fyrir að loka sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri og hefur sú greiðsla verið innt af hendi?

3. Kemur til greina að ráðherra afturkalli fjárveitingu ríkisins til úreldingar sláturhússins og veiti sveitarfélaginu hana þess í stað til atvinnuuppbyggingar?

4. Kemur til greina að ráðherra beiti áhrifum sínum til að tryggja áframhaldandi rekstur sláturhússins, sem ég veit að hugur heimamanna stendur til?