131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:44]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurning er um hversu mörgu fé hafi verið slátrað í sláturhúsinu síðustu árin. Árið 2000 voru það 21 þús. fjár, 26 þús. árið 2001, 27 þús. árið 2002, 27.400 árið 2003 og 27.894 árið 2004.

Samkvæmt upplýsingum frá Sláturfélagi Suðurlands eru ársverk ekki nákvæm upp á klukkustund þessi ár en talið er að ársverkin hafi verið 4,7—5,2. Ég vil auðvitað taka fram að það er varla hægt að reikna þetta upp í ársverk. Þessir peningar hafa auðvitað verið fólkinu sem þar vinnur mjög dýrmætir peningar. Sveitafólkið hefur haft þarna vinnu við sláturhúsið og hefur munað um þær tekjur. Þannig er erfitt að miða bara við ársverkin sem ekki eru mörg.

Hversu mikið er ráðgert að greiða Sláturfélagi Suðurlands o.s.frv. fyrir þetta? Úreldingarbætur Sláturfélags Suðurlands vegna úreldingar á Kirkjubæjarklaustri námu 24,6 millj. og fór sú greiðsla fram í byrjun þessa árs.

Kemur til greina að ráðherra afturkalli fjárveitingu til ríkisins og greiði sveitarfélögum? spyr hv. þm. Nei, slíkt væri brot á reglum nr. 651/2003, um úreldingu sláturhúsa á árunum 2003 og 2004. Ef brugðið verður út frá áður settum reglum um úreldingu hefur jafnræði þeirra sem sóttu um úreldingu verið skert, sennilega með ólögmætum hætti. Ekki er hægt að breyta fyrir fram settum forsendum fyrir úreldingu sláturhúsa eftir á, einum aðila í hag eða einu sveitarfélagi í hag. Verði slíkt gert er jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem ég veit að hv. þingmenn þekkja, brotin og ríkissjóður kann þar með að verða dæmdur bótaskyldur fyrir hugsanlegu tjóni annarra sláturleyfishafa. Ég veit að hv. þingmenn vilja ekki þannig sé brotið gegn lögum eða reglugerðum þannig að þetta kemur ekki til greina.

Hv. þm. spyr: Kemur til greina að ráðherra beiti áhrifum sínum til að tryggja áframhaldandi rekstur sláturhússins? Ég átti fund bæði með stjórn og framkvæmdastjóra Sláturfélags Suðurlands og enn fremur með sveitarstjórn Skaftárhrepps og gerði þeim grein fyrir þessum úreldingarreglum og því fé sem veitt væri til þessa verkefnis. Ég gerði þeim grein fyrir því að þetta væri einungis ákvörðun félags þeirra, Sláturfélags Suðurlands og að það ætti rétt lögum samkvæmt á að sækja um úreldingarbætur, það væri Sláturfélag Suðurlands sem úrelti þetta hús en ekki landbúnaðarráðherra. Það er alfarið Sláturfélag Suðurlands sem tekur þessa ákvörðun og gerir það á sínum forsendum og ég vona að hún sé tekin út frá hagsmunum félagsins. Ég get ekki tekið þá peninga og rétt öðrum. Það er annað mál hvað menn geta gert í byggðamálum í gegnum Byggðastofnun eða slíkt batterí, sem sinnir þeim verkefnum til að koma til móts við stöðuna í því sveitarfélagi.

Það var á erfiðum tímum í sauðfjárræktinni að farið var út í úreldingu sláturhúsa. Það er kannski til marks um þróunina á því sviði að fyrir nokkrum árum rak Sláturfélag Suðurlands líklega 7–8 sláturhús. Nú rekur það eina starfsstöð á Selfossi og telur sig bæði geta staðið vörð um hærra verð til bændanna og lægri sláturkostnað sem skili sér til bændanna með þeim hætti. Ég er sannfærður um að úrelding sláturhúsanna, þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í til að bæta bændum þeirra erfiðu kjör, þ.e. 170 millj. kr. til úreldingar sláturhúsanna og 140 millj. kr. til að bæta stöðu sauðfjárbænda á þessum tíma, hafa haft prýðileg áhrif á stöðu þeirra. Nú er staðan sú að sala á lambakjöti hefur ekki verið meiri í mörg ár. Þróunin í lambakjötinu er ör í þeim starfsstöðvum sem ekki bara slátra og setja inn á frysti heldur slátra, vinna afurðina, koma henni á markað o.s.frv. Það er því mikil þróun í þessari grein. Ég er sannfærður um að þessi úrelding og þær aðgerðir sem sauðfjársamningurinn, það sem unnið hefur verið að á vegum Bændasamtakanna og ekki síður sláturleyfishafanna, hefur skilað sér í batnandi stöðu sem þingmenn nefna oft í þessum stól og fagna með landbúnaðarráðherra yfir því að bjartara skuli fram undan.