131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:52]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri hefur verið lokað og það er því miður staðreynd. Ég var fyrr í vetur staddur á fundi með íbúum Kirkjubæjarklausturs og þar var einnig hæstv. landbúnaðarráðherra staddur. Það var mjög forvitnilegt að koma á þann fund og það var mjög áhugavert og skemmtilegt að finna að þrátt fyrir þetta hefur fólk alls ekki gefist upp. Við skulum ekki gleyma því að þetta er lítil byggð á milli sandanna. Hún er viðkvæm fyrir áföllum og ég tel mjög brýnt að lögð verði mikil áhersla á það að þeirri vörn sem þarna er núna verði á ný snúið í sókn. Ég hygg, og deili held ég þeirri skoðun með fjölmörgum íbúum á Kirkjubæjarklaustri og í nágrannasveitum, að sóknarfærin liggi að stórum hluta til í ferðaþjónustu og ég tel að það sé skylda okkar, ekki síst þingmanna kjördæmisins, að sjá til þess að þá verði hlúð að vaxtarbroddum og nýsköpun í þeim atvinnuvegi til framtíðar.